miðvikudagur, desember 15, 2004

Hollenskar konur vilja þægileg nærföt fremur en æsandi

Konur í Hollandi kjósa nærföt sem eru þægileg fremur en æsandi. Flestar fá skipt æsandi undirfötum sem þær fá í jólagjöf og velja sér í staðinn venjulegri og efnismeiri nærbuxur og brjóstahaldara. Er þetta niðurstaða könnunar sem hollenska fyrirtækið Body Fashion Promotion hefur gert.
Fulltrúi fyrirtækisins sagði að þótt flestir karlmenn virðist halda að það gleðji konur að fá æsandi undirföt sé raunin sú að konunum finnist það alls ekki sérlega skemmtilegt.
Frá þessu greinir Ananova.com.
Framkvæmdastjóri alþjóðasviðs nærfataframleiðandans Triumph, Rob Brand, segir:
„Maður sem er að kaupa nærföt á konuna sína eða kærustuna velur yfirleitt ekki eitthvað sem hann heldur að hún verði ánægð með heldur velur hann föt sem hann langar til að sjá hana í. Flestir karlmenn velja djúprauðan lit, sem þeim finnst greinilega fallegur. En konur eru annarrar skoðunar ... Það fer ekki á milli mála að á veturna vilja þær svart.“


Þessi frétt er á fann ég á http://www mbl.is rétt í þessu.

Það skyldi þó aldrei vera að g-strengir (tannþræðir, sjálfskeinarar) séu beinlínis óþægilegir. –Þetta viðurkenna hollenskar konur. Af hverju þræta aðrar konur þá fyrir að þessi “klæðnaður” sé þægilegur og segja svo að “það venjist”. Varla eru þær allar masókistar. Af hverju að venjast sársauka ? Ástæðan er einföld og flestir vissu svarið í upphafi.
– Athyglin þykir eftirsóknarverð og okkur er kennt frá blautu barnsbeini að kynlíf selji. Þess vegna eru til pils sem líta út eins og hárteygjur í barnafatadeild Hagkaupa. Þess vegna eru börn gerð að kynverum.
- Hver mundi í alvöru taka óþægilegan sjálfskeinara fram yfir þægilegar “ömmunaríur” ?

Brynja Halldórsd.

mánudagur, desember 06, 2004

Hæ öll saman.
Ég mæli hér með sérstakri bíómynd sem þið ættuð að sjá.
Tala nú ekki um ef einhver er að læra um þessa atburði í sögutíma. En þetta er myndin Iron Jawed Angels sem fjallar um súffragetturnar í Bandaríkjunum og baráttu þeirra fyrir kosningarétti.
Þessi mynd er ofan á að vera áhugaverð þá er hún mjög vel leikin, myndatakan flott og falleg tónlist.
En í stuttu máli fjallar myndin um það að Alice Paul (Hilary Swank) og Lucy Burns (Frances O’Connor) stíga út úr hinni eiginlega kvennahreyfingu og stofna sína eigin hreyfingu sem öðrum fannst öfgakennd.
En konur sem tóku þátt í hreyfingu þeirra gáfust aldrei upp, stóðu útí hvaða veðri sem er fyrir utan hvíta húsið til að mótmæla og lentu meðal annars í fangelsi þar sem var farið ótrúlega illa með þær. Þar fóru þær í hungur verkfall og voru mataðar með valdi. Vegna þess hve erfitt var að mata þær fékk myndin þetta nafn “Iron Jawed Angels”.
Það voru ekki bara menn sem stóðu í vegi þeirra heldur einnig eldri íhaldssamari femínistar með Carrie Chapman (Angelica Houston) í fararbroddi sem leist illa á hinar ungu og öfgafullu. Þessar konur þurfa að læra að vinna saman.
Svo má ekki gleyma því að á meðan á öllu þessu stendur er einnig stríð í gangi svo ekki bætir það úr skák.
En ég vil ekki segja of mikið um myndina, hér eru tveir linkar um myndina:
http://iron-jawed-angels.com/
http://www.hbo.com/films/ironjawedangels/

Ég skrifa svo eitthvað meira inn á skemmtilegu síðuna okkar seinna.
Keep up the good work
Nadira

fimmtudagur, desember 02, 2004

Karlar eru körlum verstir

Ég las í bók um daginn sögu um mann skrifaða af syni hans. Faðirinn hafði verið heilbrigðið uppmálað, í góðu formi, hófmaður á allan hátt og allt í besta lagi. Það er þangað til hann lést „óvænt“ úr krabbameini.

Honum hafði verið kennt að sannur karlmaður horfir fram hjá sársaukanum og tekur hann út fyrir liðið eða þá ættjörðina. Fyrir honum var það skylda karlmanns að sjá fyrir fjölskyldu sinni sama hvað gengur á. Það fólst meðal annars í því að vinna mikið og fórna sér fyrir fyrir fjölskylduna á alla hátt. Faðirinn stærði sig af því að hafa aldrei látið smá kvef eða veikindi hindra sig í að mæta til vinnu.

Þegar hann byrjaði að eiga í vandræðum með hægðirnar notaði hann hægðarlyf, þegar hann tók eftir blóði í þeim taldi hann sér trú um að það væru leifar af tómötum eða einhverju álíka. Þegar hann loksins þoldi ekki meir og leitaði til læknis var það of seint. Hann dó með ársveikindaleyfi uppsafnað.

Forréttindi karlmenskunnar eru dýrkeypt. Styttri líftími, léleg heilsa, tilfinningagrunn sambönd og minni tími með ástvinum fylgja pakkanum. Að meðaltali lifa karlar sjö árum styttra en konur. Karlar neyta áfengis og tóbaks í meira mæli en konur sem veldur aukinni sjúkdómahættu og slæmri heilsu og ofan á þetta þá leita þeir síður læknishjálpar þegar eitthvað bjátar á. Karlar eiga frekar til að taka þátt í ofbeldisverkum og áhættuhegðun heldur en konur.
Karlennskuímyndin innrætir körlum að fela sársauka sinn og takast ekki á við hann.


Þetta finnst mér ansi góður punktur. Karlar þurfa að gera sér grein fyrir óheilbrigðri karlmennskuhegðun sinni. Þeir þurfa að gera sér grein fyrir skaðanum sem þeir eru að gera öðrum og sjálfum sér og meta hvort kostnaður karlmennskunnar sé hennar virði.


Sveinn Guðmundsson.

mánudagur, nóvember 29, 2004

Til skemmtunar og hugleiðinga leyfi mér að birta hér bréf sem vinkona mín sendi framkvæmdastjóra þess fyrirtækis sem flytur inn Yorkie.

----------------------------------
Til að gleðja þá sem auk mín kynnu að hafa furðað sig á Yorkie súkkulaðinu sem er hvorki ætlað stelpumkellingum birti ég hér póst sem ég sendi framkvæmdastjóra Danóls, fyrirtækisins sem flytur súkkulaðið inn, á dögunum. Hann svaraði mér um hæl og var hinn almennilegasti í alla staði en kaus þó að láta svarið við spuringunni sem ég varpa fram í lok bréfsins liggja á milli hluta.
Mér skilst að "ekki fyrir kellingar" hafi nú vikið fyrir "ekki fyrir stelpur". Það er svo matsatriði hvort breytt orðalag skipti nokkru máli.


Sæll Einar,
mig langar að koma á framfæri óánægju minni varðandi Yorkie súkkulaðið sem fyrirtæki þitt flytur inn og auglýsir nú undir slagorðinu "ekki fyrir kellingar".
Gott að vita, ég mun þá ekki gefa ömmu minni þetta súkkulaði.
Á umbúðunum utan um súkkulaðið stendur reyndar "not for girls" en enska orðið girl þýðir stúlka eða stelpa ekki kelling. Þetta hefur eitthvað misfarist í þýðingunni hjá ykkur. Eða getur verið að stelpa hafi ekki þótt nógu niðurlægjandi orð til að nota?
Ég mun allavega gegna og ekki heldur gefa neinum stelpum sem ég þekki súkkulaðið ykkar.
Sjálf er ég kona og því ætti ég tæknilega að mega borða það en ég mun samt ekki gera það. Þannig kýs ég að sýna samhug með kynsystrum mínum (stelpunum og kellingunum).
Þú ert kannski búinn að átta þig á þegar hér er við sögu komið, Einar, að mér finnast auglýsingar eins og þær sem þitt fyrirtæki stendur fyrir lykta af karlrembu og finnst að á árinu 2004 ættu flestir að vera sammála því að karlremba sé ekki af hinu góða. Eða hvað?
Mér þætti vænt um að fá frá þér svar þar sem þú gætir útlistað fyrir mér ástæður þess að Danól kýs að stunda sölu á vöru sem þeirri sem umræðir.
Staðreyndin er sú að helmingur Íslendinga eru konur og sá helmingur er illilega niðurlægður þegar honum er bent á að halda sig frá vissum vörutegundum, kynferðis síns vegna.
Sú var tíðin að frumbyggjar Ástralíu voru réttdræpir hvar sem þeir fóru og svartir í Bandaríkjunum máttu ekki ganga inn í hvaða byggingar sem var. Þessum hugsunarhætti var ekki breytt með því að ítreka enn frekar muninn á hvítum og lituðum með fyndnum súkkulaðiauglýsingum og það er deginum ljósara að það sama gildir um kynjamisrétti.
Svo ég spyr í fullri alvöru Einar, myndirðu nokkurn tíma íhuga að aulýsa varning með slagorðinu "ekki fyrir svertingja"?

Með ósk um svar,
Eyrún Ólöf Sigurðardóttir.
--------------------------------------
ábyrgð: Bryndís Björgvinsd.

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Eftirfarandi pistill er ræða sem ég hélt í Kringlunni þegar Kvenréttindafélag Íslands hélt ræðumaraþon kvenna þann 23.-24. október síðastliðinn.

Mig hefur lengi dreymt um að vera þula. Þið vitið ein af þessum huggulegu dömum eða örfáu herrum sem birtast á skjánum á hverju kvöldi og segja manni hvað verður á dagskrá. Nú maður hlustar á þuluna og getur síðan spurt sjálfa sig: Langar mig, eða langar mig ekki að horfa á sjónvarpið í kvöld?
Ég er að hugsa um að láta þennan draum minn rætast hér í dag.

Góðan daginn góðir landsmenn og velkomnir að skjánum. Dagskráin í dag hefst á efni fyrir yngstu kynslóðina. Fyrsti þátturinn er vinsælasti þátturinn í dag, japönsk teiknimynd sem auðvitað er stútfull af ofbeldi því eins og við vitum er engin teiknimynd án ofbeldis. Næst kemur sívinsæll ofbeldisþáttur frá 9. áratugnum um karlmenn sem allir eru vöðvabúnt og kalla sig Masters of the universe. Að lokum er svo barnfóstrukúbburinn, þáttur um hressar táningsstúlkur sem passa börn og tala um sæta stráka.

Strax að loknum barnaefni taka svo við fréttir og veður.

Stöldrum aðeins við hérna… Mig hefur reyndar alltaf líka dreymt um að vera fréttaþula, spurning hvort ég slái ekki bara tvær flugur í einu höggi hér í dag og láti þann draum rætast líka.

Í fréttum er þetta helst:

Maður á þrítugsaldri var í dag sýknaður í héraðsdómi af ákæru um nauðgun þar sem ekki þótti sýnt að stúlkan sem lagði fram ákæruna hefði í raun sagt nei.

Formaður stærsta stjórnmálaafls á Íslandi hefur ekki áhyggjur af slæmri útkomu kvenna í prófkjöri flokksins. Hann segir prófkjörið fara fram á einstaklingsgrundvelli og kyn þar ekki skipta máli. Hann segir þó konur verða að standa betur saman innan flokksins.

Launanefnd sveitafélaganna sér ekki ástæðu til að hækka laun grunnskólakennara þar sem karlmenn eru mjög fáir í stéttinni.


…og þá aftur yfir í hlutverk þulunnar.

Eftir fréttir verða sýndir tveir bandarískir gamanþættir. Báðir þættirnir fjalla um það sama. Aðalsöguhetjan er feitur, ósjálfbjarga og barnalegur karl. Hann er svo giftur gullfallegri konu sem er ofurmamma en getur stundum orðið soldið þreytandi með tuðinu í sér. Eiginkonan kemst þó ekki í hálfkvisti við tengdamömmuna sem kemur reglulega í heimsókn og gerir karlinum gramt í geði með stöðugum útásetningum og með því að láta hann stússast hitt og þetta meðan hann gæti verið að drekka bjór og horfa ruðning. Karlinn segir svo alls kyns brandara um hvað gerist ef konan lætur hann vaska upp eða neitar honum um kynlíf!


Klukkan 21 hefst svo veruleikaþátturinn: Americas next top sexbomb en hann hefur átt gríðarlegum vinsældum að fagna um allan heim síðan hann hóf göngu sína og það er ekki síst að þakka stjórnanda þáttarins sem er Pamela Spears. Í þættinum keppast 12 ungar stúlkur um titilinn en þær þurfa að keppa í ýmsum þrautum svo sem að bjarga heiminum á bikiníi einum klæða og með kynþokkann einn að vopni. Ein stúlka fellur úr keppni í viku hverri en sjónvarpsáhorfendur geta haft áhrif á niðurstöðuna með símakosningu þar sem þeir styðja sína bombu.

Þegar kynbomburnar hafa lokið sér af er komið að umræðuþættinum Gullkálfurinn. Þar fær Jón Jónsson til sín valda gesti að tala um stjórnmál og atvinnulíf þjóðarinnar allrar. Í þættinum í kvöld verður talað um málefni Kópavogs í tilefni af ört vaxandi byggð í Kópavogi, miðju höfuðborgarsvæðisins. Jón mun fá til sín sömu viðmælendur og voru í blaði um Kópavog sem nýverið var dreift á öll heimili höfuðbogarsvæðisins. (Innskot: hér fletti ég í gegnum og blaðið og benti á myndirnar og greinarnar sem þar voru). En það eru bæjarstjórnarkarlinn, hinn bæjarstjórnarkarlinn, arkitektakarlinn, skólakarlinn, bankakarlinn, bakarakarlinn, kirkjukarlinn, íþróttakarlinn, bílakarlinn, pönkkarlinn og Bykokarlinn. Eins og við vitum öll þá vill Gullkálfurinn spegla raunveruleikann eins og hann er, því hljóta engar konur að búa í Kópavogi.


Kvikmynd kvöldsins er harðhausamyndin Explosion in the sunset. Myndin fjallar um sálarlausan sprengjufræðing, leikinn af Bruce Willis, sem vikið hafði verið úr bandaríska hernum en nú hótar að sprengja upp neðanjarðarlest og grunnskóla í New York fyrir sólarlag ef lögreglumaður (Keanu Reeves) sem kom upp um spillingu hans innan hersins getur ekki leyst ákveðnar þrautir fyrir þann tíma. Lögreglumaðurinn sem sjálfur á við áfengisvanda og ofbeldishneigð að stríða gerir sitt besta til að leysa þrautirnar en á vegi hans verða hver þokkadísin á fætur sem fær ekki staðist. Það eru þær Halle Berry, Lucy Lu og Angelinu Jolie sem tæla hann. Hörkuspennandi, ofbeldisfull og sexí mynd.

Um miðnætti verða svo dagskrárlok og verða þá spiluð tónlistarmyndbönd þar til barnaefni hefst á morgun. Engum þarf því að leiðast og horfa á stillimynd því fullklæddir karlar munu syngja og rappa meðan hópur af bikiníklæddum konum mun hrista rassinn framan í myndavélina.

Nú getið þið ákveðið hvort ykkur langar, eða langar ekki að horfa á sjónvarpið í kvöld.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

laugardagur, nóvember 20, 2004

Vændi

Á Íslandi er vændi til framfærslu bannað með lögum. Á hinum Norðurlöndunum er vændi hinsvegar ekki bannað en það er langt frá því að vera samþykkt eða viðurkennt. Svíar hafa hinsvegar tekið þá stefnu að refsa kaupendum vændis með því að gera kaup að vændi að lögbroti.
Vændi er alvarlegt félagslegt vandamál sem samfélagið þarf að takast á við. Það er hinsvegar ekki allir sammála hvernig taka á því vandamáli. Ýmsir hópar vilja ekki líta á vændi sem vandamál og finnst að samþykkja eigi vændi. Þeirra á meðal eru Frjálshyggjumenn.
Eftirfarandi er úr stefnuskrá Frjálshyggjunar:
Vændi skal vera leyft. Kynlíf er heimilt. Peningagreiðslur á milli manna eru heimilar. Kynlíf gegn greiðslu á einnig að vera heimilt…………Það er órökrétt að telja vændi ekki vera val vændiskvenna og vilja banna það, því valkosturinn, að fá ekki tekjurnar, geti verið svo slæmur. Sá sem vill banna vændi af slíkri ástæðu vill neyða vændiskonurnar til að taka enn verri kost, að þeirra mati.
Þetta er bara hluti úr vændisstefnu Frjálshyggjunar. Það er hægt að sjá hana í dýrð sinni hér.

Ég tel aftur að móti að við eigum ekki að samþykkja vændi og er þar af leiðandi ekki samþykk Frjálshyggjumönnum. Ég er reyndar á þeirri skoðun að við ættum ekki að gera vændiskonur að glæpamönnum en ég er langt frá því að við ættum að leggja viðurkenningu okkar á vændi.
Vændi er sala á konum svo einfalt er það. Þær konur sem stunda vændi búa flestar við bágar aðstæður, mjög margar eiga í fíkniefnavanda og margar þeirra hafa lent í kynferðislegri misnotkun. Kannanir hafa sýnt að 55-80% vændiskvenna hafa lent í kynferðilegri misnotkun. Félagslegur bakgrunnur kvenna einkennist því að mikilli eymd, það er þessi eymd sem veldur því að konur leiðast út í vændi. Sala á eymd annarra á ekki að vera samþykkt. Þess vegna vil ég eins og Svíarnir sjá að mönnum sem kaupa sér “þjónustu” vændikvenna verði refsað. Hvað sem Frjálshyggjumenn segja um að þetta sé val vændiskvenna þá er það einfaldlega ekki rétt. Maður þarf að taka tillit til fleiri þátta en hvort kona ákveður að gerast vændiskona eða ekki. Já, svona er þetta maður verður að líta á hlutina ekki bara útfrá hagfræðinni, markaðnum og framboði og eftirspurn.
Það er líka æðislegt það sem Frjálshyggjumenn gef í skyn að við ættum ekki að taka vændið af konunum og leiða þær út fátækt. En hlutirnir eru þannig að ekki allt snýst um peninga, hvort er verra að vera ekki í vændi og skorta pening eða vera í vændi og skaða sálina? Í alvörunni, viljum við að kynlíf verði bara eins og hver önnur þjónusta, sem þú getur notið ef þú getur greitt fyrir hana? Ef ég tala bara út frá siðferði þá tel ég að kynlíf sé eitt það mannlegasta sem við eigum og ég vil ekki leggja verðmiða á það.

Aðalbjörg Bjarnadóttir

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Hér birtist grein sem hefst á þessari orðaræðu:
Meðlimir Femínistafélagsins gengu berserksgang í Hagkaupum um daginn og unnu skemmdarverk á vörum sem þar voru til sölu. Þeir mættu, vopnaðir límmiðum með slagorðinu “hefur þú frelsi til að hafna”, völsuðu að tímaritastandinum og skelltu límmiða framan á öll eintök tímaritsins B&B sem þar voru.

Þetta er svolítið hressandi frásögn, skemmtileg hvernig höfundur líkir okkur við.. já berserki og svona bardagamenn eins og Gísla Súrs og Grettir. Þetta eru athyglisverðar líkingar.
Femínistar alveg kolkexklikk að ganga berserksgang og valsa um allt og skella vopnum sínum á vörur í .....hvað?
...Eigum við að halda orðaleiknum áfram?
Ok... skella vopnum sínum á vörur í blásaklausri búð og svo fóru femínistanir með sko þvílíku valsi að alveg þrusudúndra þessum öfluguvopnalímmiðum alveg eins og úr vélbyssu væri skotið.

Ég get ekki að þessu gert, frásögn pistlahöfundarins er svo öfgafull og fordómafull frá upphafi að maður kemst bara í ham.

Sé fyrir mér t.d. Kristínu Tómasar með límmiðana á svona belti um sig miðja sem hún tengir við svona merkingabyssu og er alveg í "berserkjaham" að skella límmiðum framan á öll eintök B&B.
Eva stendur fyrir aftan hana og hjálpar Kristínu að mata merkjabyssuna svo valsa þær um allt og... já lesið bara greinina, því að það var eitthvað meira þarna sem var svona í þessum stíl...já einmitt það var þetta:
"... var foringi þeirra; ráðskona staðalímyndahóps Femínistafélagsins ófeimin við að lýsa ábyrgð á verknaðinum á hendur sér fyrir framan myndavélarnar."
Berserkurinn hefur ofan á allt ekki einu sinni skilning á því að koma sér í skjól eftir glæpinn. Þetta eru svona Berserkir sem að reyna ekki einu sinni að forða sér af vettvangi, svona eins og bankaræningi sem ákveður að fá sér "smá kaffi og með'ví" hjá gjaldkeranum á kassa 3, eftir ránið sjálft.
Átti ráðskona staðalímyndahópsins kannski að vera "feimin" við að viðurkenna þessa framkvæmd? Það passar nú ekki inn í notkun minna úr íslendingasögunum hjá pistlahöfundi, því aðalberserkinir stóðu á sínu fram í rauðan dauðan.
Af hverju ætti hún að hafa verið feimin við það?


Var einhver að búast við því að höfundur slíkrar greinar geti litið á þessa atburði fordómalausum augum? Það er ekki spurt um tilgang okkar, það er ekki reynt að kafa eftir sjónarhorni okkar á þennan atburð, það sem stendur á límmiðanum kemst ekki til skila.
Hjá svona fólki er hver einasta tjáning okkar dauðadæmd.

Jæja, enn og aftur eru Frjálshyggjumenn búin að komast að því hvað hrjáir konur.
Þeim finnst líklegra að konur reyni að falla að staðalímyndum vegna lélegrar sjáfsmyndar, en að léleg sjálfsmynd kvenna sá staðalímyndum að kenna (sjá grein).
S.s. þetta er meðfætt, tveir x litlingar stuðla að lélegri sjálfsmynd..eða eitthvað þannig..eitthvað svona lífræðilegt allavega, því að samfélagið, það er sko ekkert að því.
Og þrátt fyrir það að kannarnir og rannsóknir ýmsar hafa bent á annað þá finnst þeim þetta samt vera "líklegt" (lesist: Við neitum að horfa á rannsóknir fræðimanna og höldum í það sem okkur þykir vera þægilegasta útskýringin... hún er líkleg... samt ekki sönn..en kannski?!?!)
Og greinin heldur áfram:
"Einhverra hluta vegna finnst þeim aldrei nóg að vera bara þær sjálfar og það getur liðið langt fram á fullorðinsárin þangað til þær sættast við sjálfar sig. (Innskot: Einhverra hluta vegna, hver er ástæðan?) Það er þó mín tilfinning að þetta sé að breytast. Jafnrétti kynjanna gagnvart lögum hefur náðst og það skiptir öllu máli. ( Innskot: Skiptir máli að hafa þetta á blaði þó svo það sé ekki farið eftir því, hvað viðkemur hugarfari telur pistlahöfunrinn ekki að það þurfi að breytast). Tækifærin eru til staðar. Konur eru smám saman að gera sér grein fyrir þessu og á sama tíma styrkist sjálfsmynd þeirra. Það eina sem við þurfum að sigrast á núna er eigið óöryggi (og af hverju eru konur öruggar? Þessari spurningu er aldrei svarað!)."


Reyndar er seinni hluti greinarinnar aðeins skárri:
Ég er ekki sátt (Innskot: við jákvæða mismunun). Ég hef of mikla trú á okkur kynsystrum mínum til þess að halda að við þurfum hjálp við að ná markmiðum okkar. Það geta heldur ekki verið góð skilaboð til ungra kvenna að hæfileikar þeirra og gáfur dugi ekki til. Þær séu súkkulaði og fái bara að vera memm ef mamma skipar hinum að leyfa þeim það. Við erum fullfærar um að taka ákvarðanir fyrir okkur sjálfar og viljum gjarnan að þær séu virtar. Jafnvel þótt við ákveðum að verða heimavinnandi húsmæður eða stripparar. Ég er til dæmis viss um að stelpan framan á B&B er mjög stolt af því að vera þar. Með því að gefa í skyn að það sé rangt og slæmt fyrir hana er verið að segja að hún sé ekki nógu skynsöm til þess að meta það sjálf. Er það ekki niðurlæging við hana?

Pistlahöfundurinn gengur s.s. út frá því að fullkomið jafnrétti ríki í samfélaginu, í orði og á borði og fullkomið hugarfarslegt jafnrétti ríkji einnig. Jákvæð mismunum komi síðan ofan á þennan fullkomnleika, og því sé ekki þörf á henni.
Og af hverju ætli stúlkan sé stolt af því að vera framan á B&B? Það kemur heldur ekki fram.
Er það ekki af því að hún er stolt yfir því að fylla vel út í þær staðalímyndir sem er haldið að konum?
En bíðum nú hæg, pistlahöfundurinn var að halda því fram að svo væri ekki, af hverju ætti stúlkan þá að vera stolt? Hver er hennar sigur? Og af hverju er hún þá þarna?

Og svona að lokum: Hér gefur að líta stjórn Frjálshyggjufélagsins.
Verðlaun fyrir þann sem finnur kvenmann! Þarna leynist (já þarna ofarlega og svo næstum því neðst...) tveir kvenmenn (2 af 18). Hvar eru konurnar? Já einmitt, þær eru svo óöruggar, þess vegna eru þær ekki þarna.
Í Femínistafélaginu eru hinsvegar fullt af konum sem þekkja ekki óöryggi (berserkir?)
Ég trúi því að fólkið í Frjálshyggjufélaginu vilji bara gefa konum tíma til að komast yfir eigið óöryggi (sem enginn af þeim veit af hverju stafar).
Þau verða þá að bíða...því hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér.

Bryndís Björgvinsd.

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Til stendur að hefja nýtt ár með aðgerðum og uppákomum. Ungliðahópurinn er nú í undirbúningsstarfi og við hittumst aðra hverja viku til þess að skipuleggja og ræða framhaldið. Við erum með ýmislegt á prjónunum og þar á meðal er áhugi okkar á að kynnast málefnum grunnskólanema. Hvert aldursskeið á sín málefni og það er erfitt að gera sér grein fyrir hvað það er sem vantar upp á eða hvað er að fara betur en áður.

Svo virðist sem að orðið "femínisti" eigi sér neikvæða skírskotun í hugum grunnskólanema og kom það í ljós í könnun sem gerð var fyrir stuttu að krökkum á þessum aldri þætti betra að lokast inni í lyftu með nýnasista eða raðmorðingja heldur en femínista. Það er greinilegt að í þeirra augum er femínista ekki karl eða kona sem vill að kynin eigi jafna möguleika í lífinu heldur einhver ógn sem geti skaðað þau.

Þá er mikilvægt að skoða hvaðan þessar hugmyndir koma og er ljóst að skoðanir ungra krakka eru oftast speglun á skoðunum foreldra þeirra eða umræðu innan skólanna. Það má þá velta fyrir sér þeirri hugmynd að fjalla jákvætt um eðli femínismans og athuga hvort börnin geti kennt gamla fólkinu eitthvað nýtt!

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Ofbeldi á konum

Morðið í Kópavoginum í gær, úrskurður héraðsdóms um daginn, fjöldi nauðgana og sifjaspella og tíðni heimilisofbeldis fær mig sem konu til þess að hugsa um stöðu mína gagnvart karlmönnum. Hvernig getur það staðist að svo stórt hlutfall kvenna verði fyrir kynbundnu ofbeldi einhvern tíman á ævinni og hvernig stendur á því að svo margir karlmenn beita konur ofbeldi?

Í gærkveldi fjallaði fréttaskýringaþáttur um ofbeldi á konum í Darfur héraðinu. Súdan er langt í burtu og erfitt að setja sig í spor þeirra sem þar búa en það er hollt hverjum manni að hugsa sig um augnablik. Þar er um þjóðarmorð að ræða líkt og í Rúanda á tíunda áratugnum. Karlar af arabískum ættum ætla að hrekja í burt allt þeldökkt fólk frá Darfur héraðinu og beita til þess markvissum aðgerðum til þess að þurrka út kynstofn þeirra. Börn eru sérstakt skotmark og eru sprengd, brennd, skorin og skotin. Konurnar þurfa þeir ekki að drepa því það nægir að nauðga þeim hrottalega og brennimerkja með arabískum táknum, þá vita allir að þær eru "ónýt vara" og geta ekki gifst eða eignast börn.

Í Darfur hafa karlmennirnir ákveðið markmið og nota líkamlegan styrk sinn og yfirráð yfir vopnum til þess að níðast á konum og börnum. Á Íslandi hafa karlmenn ekki sameiginlegt markmið en níðast þó samt á konum sínum og jafnvel börnum. Hvað veldur?

Getur verið að í samfélagi þar sem dómari léttir vægi dóms vegna þess að ofbeldismaðurinn hafði fórnarlamb sitt grunað um framhjáhald að litið sé á ofbeldi á konum sem eðlilegt? Er líkamsárás inni á heimili léttvægari en líkamsárás inni á skemmtistað? Mun Magnús Einarsson fá léttari dóm fyrir að kyrkja eiginkonu sína heldur en ef hún hefði verið bróðir hans eða vinur?

föstudagur, október 29, 2004

Femínistaball

Í kveld verður lokahnykkur Femínistavikunnar, ball á Kaffi Viktor klukkan 22:00. Fjölmennum öll í femmastuði.

Mótmælin í gær á Arnarhóli þar sem misréttið var grafið gengu vel og var vel mætt. Í dag var Staðalímyndahópur með aðgerð í bókabúðum og bensínstöðvum þar sem límmiðar með áletruninni "Hefur þú frelsi til að hafna?" voru límdir á blaðið b&b. Það tókst vel upp en fékk þó ekki mikil viðbrögð búðarfólks.

Á morgun verður stofnaður leshringur um femíniskar bókmenntir á málþingi um Coline Serreau í anddyri Borgarleikhússins kl. 16:00 - 18:00.

Sjáumst í kvöld!

fimmtudagur, október 28, 2004

Velheppnað kvöld

Gleðikvöld ungliðahópsins tókst með eindæmum vel og var fullt hús. Þegar mest var töldu starfsmenn Hins hússins 70 manns. Áhuginn er mikið gleðiefni fyrir femínista og fór kvöldið fram úr björtustu vonum.

Gísli Hrafn, mannfræðingur, steig fyrstur á stokk og fræddi okkur um sögu femínismans. Sagan er löng en þó svo stutt. Konur hafa barist fyrir réttindum sínum frá örófi alda en þó er svo stutt síðan að sú barátta fór að sýna árangur. Árangurinn hefur verið hægur og ekki í samræmi við þá baráttu sem háð hefur verið og ekki í samræmi við almennan vilja fólks til jafnréttis. Gísli skilgreindi femínista sem fólk sem trúir því að jafnrétti hafi ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Að endingu svaraði hann þeirri spurningu sem hann ávallt fær við svona tækifæri, afhverju hann sé femínisti þar sem hann er karl. Ætti hann ekki bara að njóta þeirra forréttinda sem felast í því að vera karlkyns? Hann svarar því á þá leið að hann trúi á jafnrétti og hann vilji þar með ekki búa í samfélagi sem veitir honum sérréttindi einungis vegna kyns hans. Einnig nefndi hann að hann vilji ekki búa í samfélagi sem segir hann vera "villidýr" sem ekki ráði við sig og eigi þar með rétt á að beita konur ofbeldi.

Katrín Anna, talskona Femínistafélagsins, ræddi um "normaliseringu" kláms og ofbeldis á konum og um karlrembuna. Tók hún sem dæmi ummæli ritstjóra b&b blaðsins um að blaðið ætti að höfða til karlrembunar (n.b. ekki karla). Hún skilgreindi orðið karlremba samkvæmt enskri orðabók, þar sem það fyrirfinnst ekki í íslenskum, sem "karl sem samþykkir lægri stöðu kvenna í þjóðfélaginu". Karlremba fer þannig ekki saman við jafnrétti þar sem takmarkið er gjörólíkt. Femínistar hafa bent á þessa staðreynd og hafa barist fyrir því að klámblöð og annað klámfengið efni sé ekki til sýnis á almenningsstöðum (s.s. í verslunum, opnum sjónvarpsstöðum) þar sem það staðfestir karlrembuna og þar með viljann til þess að staða kvenna sé lægri í þjóðfélaginu.

Umræðurnar voru líflegar og greinilegt að ungt fólk hefur mikið um jafnrétti að segja. Rætt var um poppmenninguna og kvenfyrirlitningin sem þar fyrirfinnst, um afstöðu dómsstóla til ofbeldis á konum og síðast en ekki síst um mikilvægi þátttöku til þess að berjast gegn þessu. Grundvallaratriði er að ræða málin og vera óhræddur við að tjá skoðanir sínar, öðruvísi náum við ekki árangri. Ekki geta allir verið sammála og kom það oft fram á fundinum að innan Femínistafélagsins eru margskonar skoðanir. En öll getum við verið sammála um að vilja jafnrétti og hvert og eitt okkar getur fundið sitt málefni innan þess ramma.

Hljómsveitirnar Nilfisk og Bob enduðu kvöldið með frábærum tónlistarflutningi. Við þökkum þeim innilega fyrir komuna og fyrir stuðninginn við jafnrétti á Íslandi. Einnig viljum við færa Hinu húsinu þakkir fyrir góðar viðtökur og stuðning.

þriðjudagur, október 26, 2004

Gleðikvöld fyrir gleðifólk

Á morgun þann 27. október kl: 20:00 mun Ungliðahópur Femínistafélags Íslands halda gleðikvöld fyrir ungt fólk í Hinu Húsinu.
Yfirskrift kvöldsins er "Hvað er femínismi" og munu Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Fí og Gísli Hrafn Atlason, ráðskona Karlahóps FÍ ræða um hugtakið femínismi og um jafnréttismál ungs fólks.
Eftir umræður verður skemmtun og munu hljómsveitirnar Nilfisk og Bob rokka upp stemmninguna fram eftir kvöldi.

Mikið fár hefur orðið vegna ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness að sýkna mann einn fyrir barsmíðar á kvinnu sinni. Óhætt er að segja að það sé ekki skrýtið þótt fólki bregði í brún við þær fréttir, enda ótrúlegt að maðurinn komist upp með það að berja fjölskyldumeðlim sundur og saman án þess að það varði lög.
Maður þessi var dæmdur ,,fyrir líkamsárás, með því að hafa, á tímabilinu frá klukkan 9:00 til 12:00, miðvikudaginn 1. október 2003, ráðist að X, á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra að Suðurgötu 79, Hafnarfirði, tekið hana hálstaki og hrint henni til og frá með þeim afleiðingum að hún hlaut tognun í hálsvöðvum og hné og yfirborðsáverka á andliti og hársverði."

Skýrslan er Héraðsdómurinn gaf frá sér virðist vera ótrúlega illa unninn, líklega þá í samræmi við vinnu málsins alls en hana er hægt að nálgast hérna.

mánudagur, október 25, 2004

Kynningarstarf hópsins hófst í dag. Heimsóttir voru framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu og flyerum dreift um Háskólann. Á morgun munum við fara í fleiri skóla og kynna kvöldið ásamt því að vera með boli og merki til sölu í Odda (byggingu félagsvísindadeildar HÍ) milli klukkan ellefu og hálf eitt.


föstudagur, október 22, 2004

Virðum konur

Nú fer styttist í að ungliðahópurinn haldi sitt fyrsta opna kvöld. Allur undirbúningur hefur gengið vonum framar og er hópurinn að verða sá virkasti í félaginu. Það verður spennandi að sjá viðbrögð ungs fólks við þessu framtaki og vonum við að sem allra flestir mæti og kynni sér femínisma.

Ástæða þess að við völdum þetta viðfangsefni er hversu fáir virðast vita hvað hugtakið þýðir. Mikill miskilningur er á ferðinni eins og vill gjarnan gerast þegar konur berjast fyrir rétti sínum. Það sem femínismi þýðir er "jafnrétti kynjanna með því að auka hlut kvenna". Það getur virst tvísýnt að ætla að berjast fyrir jafnrétti með áherslu á annað kynið en í raun er það það eina sem virkar. Ef við þyrftum ekki að berjast fyrir hluti kvenna þá þyrftum við ekki að berjast fyrir jafnrétti.

En hvers vegna þessi barátta? Ættu ekki allir að geta sæst á að gera hlut kvenna jafnan karla? Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir kvenna til þess að vera litnar jafningjar karla á öllum sviðum hefur það ekki enn tekist og mega þær ennþá þola misrétti vegna kyns síns.

Misrétti gegn öðrum kynþáttum, gegn samkynhneigðum eða öðrum hópum hefur farið minnkandi og þykir ekki lengur eðlilegt að hæðast að fólki vegna kynhneigðar eða litarháttar í okkar samfélagi. Fimmaurabrandarar, háðsglósur og níðyrði heyra nánast sögunni til og sýnir það hvernig hugarfarið hefur breyst og orðið umburðarlyndara.
Þrátt fyrir þetta nýfengna umburðarlyndi mega konur ennþá hlusta á orð eins og "kerling" vera brúkuð sem níðyrði á meðan "karl" heldur ávallt sinni upprunalegu merkingu og hefur jafnvel ákveðinn þokka yfir sér. Karlrembubrandarar þykja fyndnir og konur sem bregðast við þeim ennþá fyndnari. Þetta segir okkur mikið um það hver virðingarstaða kvenna almennt er í samfélaginu okkar.

sunnudagur, október 10, 2004

Nýtt fólk, nýr kraftur

Nýr Ungliðahópur FÍ var stofnaður á dögunum og hefur hann verið virkur um nokkurra vikna skeið. Takmark hópsins er að vinna að verkefnum sem tengjast ungu fólki og jafnrétti kynjanna. Fyrsta verkefni hópsins verður í Femínistavikunni, síðustu helgina í október. Þá mun hópurinn halda fund og skemmtun í nýju húsnæði Hins Hússins í Austurstræti. Yfirskrift fundarins verður "Hvað er femínismi" og munu Katrín Anna, talskona FÍ og Gísli Hrafn, ráðskona Karlahópsins fara í gegnum söguna og áhrif femínisma á hana. Á eftir verður boðið upp á umræður og að þeim loknum munu tónlist og stemmning taka við.

mánudagur, maí 03, 2004

-hvað er femínismi?-

Hérna er hægt að lesa umfjöllun um hvað femínismi er á síðunni Skoðun.is
Sjá grein

þriðjudagur, apríl 20, 2004

-kúgun kvenna í Sádi Arabíu-

.. það er svo sem engar fréttir að réttindi kvenna er nánast engin í Sádí Arabíu en í vikunni tók þekkt sjónvarpsfréttaþula af skarið og sýndi andlit sitt opinberlega eftir að maður hennar hafði barið hana til óbóta. Þar í landi hefur sennilega aldrei áður verið talað um heimilisofbeldi í fjölmiðlum áður en þar í landi má kona ekki keyra, kjósa,eiga fyrirtæki eða ferðast án leyfis mannsins síns.. .. sjá fréttina hérna jaminn .. hvað getur maður sagt ..

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Velkomin á nýja heimasíðu hóps ungs fólks í Femínistafélagi Íslands. Á næstunni munu hér vera sett inn efni sem okkur langar að deila með ykkur, umræður og ýmislegt annað sem tengist jafnréttisbaráttunni...