mánudagur, nóvember 29, 2004

Til skemmtunar og hugleiðinga leyfi mér að birta hér bréf sem vinkona mín sendi framkvæmdastjóra þess fyrirtækis sem flytur inn Yorkie.

----------------------------------
Til að gleðja þá sem auk mín kynnu að hafa furðað sig á Yorkie súkkulaðinu sem er hvorki ætlað stelpumkellingum birti ég hér póst sem ég sendi framkvæmdastjóra Danóls, fyrirtækisins sem flytur súkkulaðið inn, á dögunum. Hann svaraði mér um hæl og var hinn almennilegasti í alla staði en kaus þó að láta svarið við spuringunni sem ég varpa fram í lok bréfsins liggja á milli hluta.
Mér skilst að "ekki fyrir kellingar" hafi nú vikið fyrir "ekki fyrir stelpur". Það er svo matsatriði hvort breytt orðalag skipti nokkru máli.


Sæll Einar,
mig langar að koma á framfæri óánægju minni varðandi Yorkie súkkulaðið sem fyrirtæki þitt flytur inn og auglýsir nú undir slagorðinu "ekki fyrir kellingar".
Gott að vita, ég mun þá ekki gefa ömmu minni þetta súkkulaði.
Á umbúðunum utan um súkkulaðið stendur reyndar "not for girls" en enska orðið girl þýðir stúlka eða stelpa ekki kelling. Þetta hefur eitthvað misfarist í þýðingunni hjá ykkur. Eða getur verið að stelpa hafi ekki þótt nógu niðurlægjandi orð til að nota?
Ég mun allavega gegna og ekki heldur gefa neinum stelpum sem ég þekki súkkulaðið ykkar.
Sjálf er ég kona og því ætti ég tæknilega að mega borða það en ég mun samt ekki gera það. Þannig kýs ég að sýna samhug með kynsystrum mínum (stelpunum og kellingunum).
Þú ert kannski búinn að átta þig á þegar hér er við sögu komið, Einar, að mér finnast auglýsingar eins og þær sem þitt fyrirtæki stendur fyrir lykta af karlrembu og finnst að á árinu 2004 ættu flestir að vera sammála því að karlremba sé ekki af hinu góða. Eða hvað?
Mér þætti vænt um að fá frá þér svar þar sem þú gætir útlistað fyrir mér ástæður þess að Danól kýs að stunda sölu á vöru sem þeirri sem umræðir.
Staðreyndin er sú að helmingur Íslendinga eru konur og sá helmingur er illilega niðurlægður þegar honum er bent á að halda sig frá vissum vörutegundum, kynferðis síns vegna.
Sú var tíðin að frumbyggjar Ástralíu voru réttdræpir hvar sem þeir fóru og svartir í Bandaríkjunum máttu ekki ganga inn í hvaða byggingar sem var. Þessum hugsunarhætti var ekki breytt með því að ítreka enn frekar muninn á hvítum og lituðum með fyndnum súkkulaðiauglýsingum og það er deginum ljósara að það sama gildir um kynjamisrétti.
Svo ég spyr í fullri alvöru Einar, myndirðu nokkurn tíma íhuga að aulýsa varning með slagorðinu "ekki fyrir svertingja"?

Með ósk um svar,
Eyrún Ólöf Sigurðardóttir.
--------------------------------------
ábyrgð: Bryndís Björgvinsd.

Engin ummæli: