mánudagur, desember 19, 2005

Fyrstir koma fyrstir fá..

Nokkur eintök af krónu konunnar eru til sölu á kaffi Hljómalind.
Fleiri væntanleg.

Baráttujólakveðjur!

þriðjudagur, desember 06, 2005

HITT í kvöld!

Vildi bara minna á jólahitt Femínistafélagsins í kvöld. Það verður upplestur úr þremur femínískum bókum sem eru að koma út fyrir jólin, söngkonan Hansa syngur nokkur lög, sýnt úr leikriti sem byggt er á smásögum Svövu Jakobsdóttur og einnig sýnd stuttmynd.

Það verður örugglega rosa gaman!
Sjáumst,
Steinunn

fimmtudagur, desember 01, 2005

Næsta upplag á leiðinni!

Það má með sanni segja að krónunni okkar hafi verið vel tekið. Hún seldist upp á nokkrum dögum og var háður mikill slagur yfir seinustu eintökunum.
En ekki ber að óttast lesendur góðir því næsta upplag er í þann mund að koma til landsins. 2000 eintök lenda á Keflavíkurflugvelli þann 5. desember og munum við reyna að koma þeim fyrir vítt og breitt svo að áhugasamir geti nálgast eintak. Ef einhver búðareigandi skyldi vera að lesa þessa færslu þá erum við að leyta að fólki í góðri aðstöðu til þess að selja nælurnar.
Annars verður krónan seld áfram í Hljómalind en aðrir sölustaðir verða auglýstir síðar.

Sigríður Tulinius
Útúrsnúningur útúrsnúinn - skrifað í góðlálegu gríni, en þó einnig alvöru.

Mér hefur tekist að láta Sjálfstæðismenn á Íslandi ergja mig alla leið til Kanada. Þar ber helst að nefna athyglisverða grein sem ég fann inni á síðu Heimdallar þar sem stúlka ein, er heitir Erla, er neikvæð út í endurvakningu Kvennafrídagsins nú í haust Segir Erla að hún hefði viljað taka þátt í honum ef: "...aðalyfirskrift þessa frídags hefði verið að sýna þeim konum samstöðu sem létu í sér heyra fyrir 30 árum, þá hefði ég pottþétt mætt." Ég veit ekki hvernig það er hægt að sýna samstöðu aftur í tímann, og efast í raun um að það sé hægt en vissulega er hægt að heiðra gjörð þessara kvenna fyrir 30 árum síðan og var það m.a. gert á Kvennafrídeginum síðasta.

Erla segir einnig: "Jafnrétti fæst ekki með því að leggja niður störf og mótmæla." Nú langar mig til þess að telja upp mörg mótmæli sem hafa vakið fólk til umhugsunar og leitt til breytinga (sem oft hafa verið skref að auknu jafnrétti) en fyrir mér er það frekar ógáfulegt þar sem þetta er sambærilegt því að einhver myndi halda því fram að pizzur væru ekki til og ég myndi rjúka upp til handa og fóta og fara að telja upp allar þær pizzur sem ég hef lesið um, séð og bragðað og sagt viðkomandi að kíkja ofaní frystinn fyrir framan kjötborðið í Fjarðarkaupum og segja mér hvað hann sæi þar. Ég segi bara eins og Jón Sig forðum “Vér mótmælum allir" og segðu mér svo Erla góð hvort að þessi orð hafi ekki skipt neinu máli!

Í annan stað finnst mér svolítið mótsagnakennt að baráttumál Bolla, sem sóttist eftir sjöunda sæti hjá flokknum nýverið, virðast hafa verið um níu talsins og þar af snerta fjögur þeirra "Ungt fólk", enda Bolli sjálfur ungur (og efnilegur): "Ungt fólk til áhrifa" Að virkja ungt fólk "Borgin fyrir ungt fólk" Húsnæðismál ungs fólks, allt saman gott og blessað. Bolli fullyrðir einnig:
"Að loknum kosningum mun Bolli beita sér fyrir auknum hlut ungs fólks í nefndum [svo] borgarinnar."

Af þessu má sjá af unga fólkinu í Sjálfstæðisflokknum (ef hægt er að dæma aðeins út frá þeim Bolla og Erlu) finnst sjálfsagt að berjast fyrir hagsmunum unga fólksins, og auka hlut þess í nefnum borgarinnar, bara af því að þetta fólk er ungt. Oft þegar ég hef talað við ungt Sjálfstæðisfólk um að auka hlut kvenna í nefndum þá hefur iðulega verið sagt að það sé ekki hægt að veita konum aukin hlut "bara af því að þær eru konur." En það má greinilega auka hlut unga fólksins bara út af því að það er ungt. Þetta segi ég af því að hlutirnir eru orðaðir svona á síðunni hans Bolla en eflaust er hann ekki að meina "ungt fólk bara af því að það er ungt" heldur "ungt fólk sem er fært um að gera góð störf í nefndum" alveg eins og við femínistar meinum þegar við tölum um aukin völd kvenna ("konur sem eru færar um að sitja í nefndum og gera þar góð störf"). Sjálfstæðisfólk hefur oft viljað snúa út úr þessu: "Konur bara af því að þær eru konur", og leyfi ég mér því hér að beita þeirra eigin útúrsnúningum á þeirra eigin baráttumál.

Erla beitir einmitt þessum útúrsnúningi sjálf í grein sinni um kvennabaráttuna með eftirfarandi orðum: "Persónulega vil ég fá stöðu á mínum eigin forsendum og ekki vegna þess að það vantar konu í stöðuna." Og því leyfi ég mér að snúa þessum útúrsnúningum hennar í raun að baráttumálum Bolla sem vill allt fyrir ungt fólk gera og bara af því að það fólk er ungt. Þetta kallar maður "að láta ungt Sjálfstæðisfólk bragða á eigin meðali."

Grein Erlu er á heimdallur.is (undir nafninu kvennafrí) og baráttumál Bolla má sjá á http://www.bolli.is/?i=3

Tekið skal fram að undirrituð telur þó þau Erlu og Bolla vera mikil gæðablóð og svaka smart, þau beita aðeins öðrum hugsunarhætti en ég myndi kjósa til að betrumbæta umhverfi sitt.

Ritað hefur: Bryndís Björgvinsdóttir