föstudagur, apríl 29, 2005
fimmtudagur, apríl 28, 2005
Fjölmennum í 1. maí gönguna!
Á sunnudaginn er verkalýðsdagurinn og þá fer fólk í kröfugöngu. Femínistafélagið fer nú í þriðja sinn í kröfugönguna, en ég var með fyrir tveimur árum og þá var ótrúlega gaman, mikil stemmning. Allir að mæta í bleikum bolum og hugmyndin er einnig sú að mæta í rauðum sokkum til að heiðra rauðsokkurnar. En í ár eru 35 ár síðan þær tóku þátt í sinni fyrstu 1. maí göngu og með þeim var stór stytta af Lýsiströtu sem var með borða um sig miðja þar sem stóð: Manneskja ekki markaðsvara. Þetta slagorð á enn vel við í dag í heimi klámvæðingar og mansals, því miður. Allir að mæta með kröfuspjöld! Látið heyra hvað þið viljið! Eða bara mæta með ykkur sjálf og baráttuandann!
Áfram femínistar!
Steinunn
Ps. Set inn nánari upplýsingar um stað og tíma þegar ég hef komist að því.
þriðjudagur, apríl 19, 2005
Hér fer stutt óútpæld pæling sem kviknaði í próflestri
Ég var að hugsa um kvennaframboð. Það eru alltaf hugmyndir á kreiki um nýtt kvennaframboð líkt og Kvennalistinn forðum daga og nýja feminíska framboðið í Svíþjóð. Konur spyrja sig hvort það sé virkilega eina leiðin til þess að koma konum að í stjórnmálaflokki og hinu háa Alþingi.
Ég veit ekki svarið en pælingin er þessi:
Ef ég ætlaði að stofna kvennaframboð með kyn- og skoðanasystrum mínum í Femínistafélaginu finndist mér ótækt að skilja strákana eftir út undan. Það er kannski ekki í anda rauðsokkanna en það er tvímælalaust andi FÍ. Strákarnir eru með. Þeir standa ekki verr hvað varðar hugsjón í verki og væru sumir úrvals feminískir þingmenn.
Þá fór ég að hugsa, er það það sem skiptir máli eða er það kynferðið?
Við vitum núna að það er vitagagnslaust fyrir jafnréttisbaráttuna að hafa konur í háum embættum ef þær spila svo bara sama leik og aðrir. Þá er betra að hafa karl með jafnréttishugsjón. Er þá langbest að hafa fullt af jafnréttissinnuðum konum?
Kona á Alþingi með jafnréttishugsjón er fyrirmynd fyrir aðrar konur, en það gerir jafnréttissinnaður karl líka fyrir karla. Og öfugt og í kross.
Ég kemst ekki að niðurstöðu en ég er mjög hrifin af þeirri hugmynda að strákarnir og karlarnir séu með. Hvort það sé best, veit ég ekki.
Eva Bjarnadóttir
laugardagur, apríl 16, 2005
Einokun áfram á klámblöðum
"Ritfanga- og skrifstofuverslunin Office 1 hóf í vikunni sjálfstæðan innflutning á erlendum tímaritum í samkeppni við Pennann-blaðadreifingu og býður þekkt tímarit á lægra verði en áður hefur þekkst á Íslandi. Sem dæmi má nefna að Cosmopolitan UK mun kosta 495 krónur hjá Office1 en kostar annars staðar yfir 1000 krónur.
Penninn-blaðadreifing hefur setið einn að tímaritamarkaðnum en Fjölvar Darri Rafnsson, framkvæmdastjóri hjá Office 1, segir verðlækkunina hafa vakið mikla athygli og það sé á köflum örtröð í verslununum þar sem fólk kaupi heilu blaðabunkana. Þeðal titla sem þegar fást á lágu verði eru GQ, Esquire, Now,Vogue, OK og Empire.
Klámblöðin sem verma efstu hillur bókaverslana eru ekki þarna á meðal. "Við eru ekki farnir að kaupa inn klámblöð og selja á lækkuðu verði" segir Darri sem útilokar þó ekki að karlablöðin Hustler, Cheri og fleiri verði einhvern tíma í blaðarekkum Office 1 á niðursettu verði.
Hann telur víst að eftirspurnin eftir klámblöðum sé umtalsverð. "Ég hef fengið mikið af fyrirspurnum um þetta og það hefur mikið verið hringt og spurt hvort við komum til með að selja klámblöð á lægra verði. Þetta eru allt karlmenn sem hafa hringt og áhuginn er greinilega umtalsverður . Við höfum ekki ákveðið neitt í þessum efnum og klámblöðin eru ekki á leiðinni inn hjá okkur en ég hefekki lokað á neitt. Ég get vel hugsað mér að taka klámblöðin inn en það strandar á svolítið á innkaupastjóranum mínum sem er kona vill alls ekki kaupa þessi blöð"
Já, hví ekki að selja mannslíkamann enn ódýrar? Þetta segir okkur að einungis áhugasamir hafa haft samband við Office1. Ég hvet til aðgerða til að sporna við mögulegri sölu Office 1 á klámblöðum.
Brynja Halldórsd.(og Hildard.)
þriðjudagur, apríl 12, 2005
Skemmtilegar umræður spunnust um stráka og stelpur í nemendastjórnum framhaldsskólanna á fjórða ungliðahitti vetrarins. Jakob, forseti nemendafélags MH talaði um kynjahlutfall í stjórnum MH síðastliðin ár og taldi það vera jöfn staða kynjanna í aðalstjórn en annað mætti segja um Lagningadagnefnd og því um líkt. Kristín Svava, formaður nemendafélags Kvennó talaði um reynslu sína af félagslífinu í skólanum en hún hefur tekið þátt í Morfís, Gettu betur og uppistandskeppnum ásamt því að vera formaður félagsins.
Það sem stóð upp úr í umræðum var að stelpur eru hræddari við mistök en strákar. Það vantar kvenímyndir og hvatningu í samfélaginu t.d. í pólítík og stjórnunarstöðum almennt. Það sem var einnig uppi á teningnum var að stelpur eru ekki nógu duglegar að hvetja stelpur, þær fá að heyra frá öðrum stelpum "Þú getur ekki farið í þetta, það eru bara strákar sem gera þessa hluti." Allir voru sammála um að það þyrfti að hvetja stelpur og stráka til að fara í þær nefndir sem þau vilja fara í, bara gera allt nógu áhugvert fyrir bæði kynin. Til dæmis að auglýsinganefnd getur verið góður vettvangur fyrir þá sem hafa áhuga á grafískri hönnun ef það er prómóterað á þann hátt.
Kvöldið var því í alla staði vel heppnað og deginum ljósara að umræðan um völd og framhaldsskóla á vel heima í Ungliðahópi FÍ. Strákar og stelpur þurfa meðvitað að brjóta niður veggi vana og hefðar og þora!
föstudagur, apríl 08, 2005
Formenn nemendafélaga framhaldsskóla á Íslandi
Flensb. 1974-2005 Strákar: 25 Stelpur: 6
MR 1879-2005 Strákar: 110 Stelpur: 8 (1. stelpa 1974)
ME 1979-2005 Strákar: 24 Stelpur: 8
VÍ 1967-2005 Strákar: 37 Stelpur: 1
MS 1970-2004 Strákar: 30 Stelpur: 4
ML 1952-2001 Strákar: 44 Stelpur: 5
MH 1966-2005 Strákar: 31 Stelpur: 7
FG 1984-2004 Strákar: 16 Stelpur: 3
FÍV 1985-2005 Strákar: 16 Stelpur: 4
FSU 1993-2005 Strákar: 5 Stelpur: 5
FB 1975-2005 Strákar: 24 Stelpur: 6 (5 stelpur á síð. 6 árum!)
FSN 2005 Strákar: 1 (fyrsta starfsár skólans)
FÁ Upplýsingar ekki til en kennari þar til 14 ára man eftir einni stelpu
FVA Upplýsingar ekki til, en kennari segir langtum fleiri stráka hafa verið fors.
VM Aust. Ekki upplýsingar um ártöl en þar hefur aldrei stelpa gegnt formennsku
Steinunn
-Þriðja gleðikvöld ungliðahóps
Femínistafélags Íslands-
Í Hinu húsinu
12. apríl 2005 Kl. 20:00
Kristín Svava Tómasdóttir
-Formaður nemendafélags Kvennó-
og
Jakob Tómas Bullerjahn
-Formaður nemendafélags MH-
Velta fyrir sér kynjahlutföllum í félagsstarfi framhaldsskóla
Af hverju eru svona fáar stelpur í Gettu betur??? Af hverju eru svona fáir strákar í skreytinganefnd??? Eru stelpur með of skræka rödd fyrir MorfÍs??? Vilja stelpur ekki gefa sér tíma til að vera formenn nemendafélags??? Skiptir einhverju máli að hafa jafn marga stráka og stelpur í stjórn nemendafélagsins í þínum skóla??????
fimmtudagur, apríl 07, 2005
Ég vek athygli ykkar á framtakinu Rjúfum þögnina sem Blátt áfram og STYRKUR standa fyrir en er stutt af UNIFEM á Íslandi og fleiri aðilum.
Rjúfum þögnina á Arnarhóli 9 apríl klukkan 14:00
Við þekkjum of mörg einhvern sem hefur lifað af ofbeldi. Sum okkar betur en aðrir.
Við bjóðum þér að sýna samstöðu, sýna í verki að við tökum ekki lengur þátt í samsæri þagnarinnar. Ofbeldi þrífst í þögninni.
Komdu á Arnarhól með þinn bol, með eða án texta - við sköffum snúru og klemmur! Við verðum líka með boli til sölu fyrir 1000 kr ef þið viljið styrkja málstaðinn.
Við hengjum upp bol fyrir okkur sjálf sem höfum lifað af ofbeldi og ef þú þekkir einhvern sem hefur lifað af ofbeldi getur þú hengt upp boli fyrir hann/hana. Ef þú vilt segja frá einhverju sem varðar ofbeldi, lesa ljóð eða stutta sögu, eða bara nafnið þitt til þess að rjúfa þögnina þá verður það í boði. Við styðjum þig í að gera það sem þú þarft til þess að rjúfa þögnina þína.
Sýnum ábyrg viðbrögð við öllu ofbeldi - Þú átt valið - Okkar val, Rjúfum þögnina!
Skipuleggjendur eru STYRKUR - úr hlekkjum til frelsis og verkefnið BLÁTT ÁFRAM.
Framtakið styðja Samtök um Kvennaathvarf, Stígamót, Kjarkur á Akureyri, UNIFEM á Íslandi, Íslandsdeild Amnesty International, V-Dagurinn og Femínistafélag Íslands.
Kveðja Nadira