föstudagur, október 29, 2004

Femínistaball

Í kveld verður lokahnykkur Femínistavikunnar, ball á Kaffi Viktor klukkan 22:00. Fjölmennum öll í femmastuði.

Mótmælin í gær á Arnarhóli þar sem misréttið var grafið gengu vel og var vel mætt. Í dag var Staðalímyndahópur með aðgerð í bókabúðum og bensínstöðvum þar sem límmiðar með áletruninni "Hefur þú frelsi til að hafna?" voru límdir á blaðið b&b. Það tókst vel upp en fékk þó ekki mikil viðbrögð búðarfólks.

Á morgun verður stofnaður leshringur um femíniskar bókmenntir á málþingi um Coline Serreau í anddyri Borgarleikhússins kl. 16:00 - 18:00.

Sjáumst í kvöld!

fimmtudagur, október 28, 2004

Velheppnað kvöld

Gleðikvöld ungliðahópsins tókst með eindæmum vel og var fullt hús. Þegar mest var töldu starfsmenn Hins hússins 70 manns. Áhuginn er mikið gleðiefni fyrir femínista og fór kvöldið fram úr björtustu vonum.

Gísli Hrafn, mannfræðingur, steig fyrstur á stokk og fræddi okkur um sögu femínismans. Sagan er löng en þó svo stutt. Konur hafa barist fyrir réttindum sínum frá örófi alda en þó er svo stutt síðan að sú barátta fór að sýna árangur. Árangurinn hefur verið hægur og ekki í samræmi við þá baráttu sem háð hefur verið og ekki í samræmi við almennan vilja fólks til jafnréttis. Gísli skilgreindi femínista sem fólk sem trúir því að jafnrétti hafi ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Að endingu svaraði hann þeirri spurningu sem hann ávallt fær við svona tækifæri, afhverju hann sé femínisti þar sem hann er karl. Ætti hann ekki bara að njóta þeirra forréttinda sem felast í því að vera karlkyns? Hann svarar því á þá leið að hann trúi á jafnrétti og hann vilji þar með ekki búa í samfélagi sem veitir honum sérréttindi einungis vegna kyns hans. Einnig nefndi hann að hann vilji ekki búa í samfélagi sem segir hann vera "villidýr" sem ekki ráði við sig og eigi þar með rétt á að beita konur ofbeldi.

Katrín Anna, talskona Femínistafélagsins, ræddi um "normaliseringu" kláms og ofbeldis á konum og um karlrembuna. Tók hún sem dæmi ummæli ritstjóra b&b blaðsins um að blaðið ætti að höfða til karlrembunar (n.b. ekki karla). Hún skilgreindi orðið karlremba samkvæmt enskri orðabók, þar sem það fyrirfinnst ekki í íslenskum, sem "karl sem samþykkir lægri stöðu kvenna í þjóðfélaginu". Karlremba fer þannig ekki saman við jafnrétti þar sem takmarkið er gjörólíkt. Femínistar hafa bent á þessa staðreynd og hafa barist fyrir því að klámblöð og annað klámfengið efni sé ekki til sýnis á almenningsstöðum (s.s. í verslunum, opnum sjónvarpsstöðum) þar sem það staðfestir karlrembuna og þar með viljann til þess að staða kvenna sé lægri í þjóðfélaginu.

Umræðurnar voru líflegar og greinilegt að ungt fólk hefur mikið um jafnrétti að segja. Rætt var um poppmenninguna og kvenfyrirlitningin sem þar fyrirfinnst, um afstöðu dómsstóla til ofbeldis á konum og síðast en ekki síst um mikilvægi þátttöku til þess að berjast gegn þessu. Grundvallaratriði er að ræða málin og vera óhræddur við að tjá skoðanir sínar, öðruvísi náum við ekki árangri. Ekki geta allir verið sammála og kom það oft fram á fundinum að innan Femínistafélagsins eru margskonar skoðanir. En öll getum við verið sammála um að vilja jafnrétti og hvert og eitt okkar getur fundið sitt málefni innan þess ramma.

Hljómsveitirnar Nilfisk og Bob enduðu kvöldið með frábærum tónlistarflutningi. Við þökkum þeim innilega fyrir komuna og fyrir stuðninginn við jafnrétti á Íslandi. Einnig viljum við færa Hinu húsinu þakkir fyrir góðar viðtökur og stuðning.

þriðjudagur, október 26, 2004

Gleðikvöld fyrir gleðifólk

Á morgun þann 27. október kl: 20:00 mun Ungliðahópur Femínistafélags Íslands halda gleðikvöld fyrir ungt fólk í Hinu Húsinu.
Yfirskrift kvöldsins er "Hvað er femínismi" og munu Katrín Anna Guðmundsdóttir, talskona Fí og Gísli Hrafn Atlason, ráðskona Karlahóps FÍ ræða um hugtakið femínismi og um jafnréttismál ungs fólks.
Eftir umræður verður skemmtun og munu hljómsveitirnar Nilfisk og Bob rokka upp stemmninguna fram eftir kvöldi.

Mikið fár hefur orðið vegna ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness að sýkna mann einn fyrir barsmíðar á kvinnu sinni. Óhætt er að segja að það sé ekki skrýtið þótt fólki bregði í brún við þær fréttir, enda ótrúlegt að maðurinn komist upp með það að berja fjölskyldumeðlim sundur og saman án þess að það varði lög.
Maður þessi var dæmdur ,,fyrir líkamsárás, með því að hafa, á tímabilinu frá klukkan 9:00 til 12:00, miðvikudaginn 1. október 2003, ráðist að X, á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra að Suðurgötu 79, Hafnarfirði, tekið hana hálstaki og hrint henni til og frá með þeim afleiðingum að hún hlaut tognun í hálsvöðvum og hné og yfirborðsáverka á andliti og hársverði."

Skýrslan er Héraðsdómurinn gaf frá sér virðist vera ótrúlega illa unninn, líklega þá í samræmi við vinnu málsins alls en hana er hægt að nálgast hérna.

mánudagur, október 25, 2004

Kynningarstarf hópsins hófst í dag. Heimsóttir voru framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu og flyerum dreift um Háskólann. Á morgun munum við fara í fleiri skóla og kynna kvöldið ásamt því að vera með boli og merki til sölu í Odda (byggingu félagsvísindadeildar HÍ) milli klukkan ellefu og hálf eitt.


föstudagur, október 22, 2004

Virðum konur

Nú fer styttist í að ungliðahópurinn haldi sitt fyrsta opna kvöld. Allur undirbúningur hefur gengið vonum framar og er hópurinn að verða sá virkasti í félaginu. Það verður spennandi að sjá viðbrögð ungs fólks við þessu framtaki og vonum við að sem allra flestir mæti og kynni sér femínisma.

Ástæða þess að við völdum þetta viðfangsefni er hversu fáir virðast vita hvað hugtakið þýðir. Mikill miskilningur er á ferðinni eins og vill gjarnan gerast þegar konur berjast fyrir rétti sínum. Það sem femínismi þýðir er "jafnrétti kynjanna með því að auka hlut kvenna". Það getur virst tvísýnt að ætla að berjast fyrir jafnrétti með áherslu á annað kynið en í raun er það það eina sem virkar. Ef við þyrftum ekki að berjast fyrir hluti kvenna þá þyrftum við ekki að berjast fyrir jafnrétti.

En hvers vegna þessi barátta? Ættu ekki allir að geta sæst á að gera hlut kvenna jafnan karla? Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir kvenna til þess að vera litnar jafningjar karla á öllum sviðum hefur það ekki enn tekist og mega þær ennþá þola misrétti vegna kyns síns.

Misrétti gegn öðrum kynþáttum, gegn samkynhneigðum eða öðrum hópum hefur farið minnkandi og þykir ekki lengur eðlilegt að hæðast að fólki vegna kynhneigðar eða litarháttar í okkar samfélagi. Fimmaurabrandarar, háðsglósur og níðyrði heyra nánast sögunni til og sýnir það hvernig hugarfarið hefur breyst og orðið umburðarlyndara.
Þrátt fyrir þetta nýfengna umburðarlyndi mega konur ennþá hlusta á orð eins og "kerling" vera brúkuð sem níðyrði á meðan "karl" heldur ávallt sinni upprunalegu merkingu og hefur jafnvel ákveðinn þokka yfir sér. Karlrembubrandarar þykja fyndnir og konur sem bregðast við þeim ennþá fyndnari. Þetta segir okkur mikið um það hver virðingarstaða kvenna almennt er í samfélaginu okkar.

sunnudagur, október 10, 2004

Nýtt fólk, nýr kraftur

Nýr Ungliðahópur FÍ var stofnaður á dögunum og hefur hann verið virkur um nokkurra vikna skeið. Takmark hópsins er að vinna að verkefnum sem tengjast ungu fólki og jafnrétti kynjanna. Fyrsta verkefni hópsins verður í Femínistavikunni, síðustu helgina í október. Þá mun hópurinn halda fund og skemmtun í nýju húsnæði Hins Hússins í Austurstræti. Yfirskrift fundarins verður "Hvað er femínismi" og munu Katrín Anna, talskona FÍ og Gísli Hrafn, ráðskona Karlahópsins fara í gegnum söguna og áhrif femínisma á hana. Á eftir verður boðið upp á umræður og að þeim loknum munu tónlist og stemmning taka við.