fimmtudagur, júní 29, 2006

Sæl öll sömul. Ég vil minna á Lötu stelpuna.

Lata stelpan er feminískt vefrit. Nafnið vísar til bókar eftir Emil Ludvik. Í upphafi bókarinnar er aðalpersónan illa þrifin og hugsar lítið sem ekkert um húsverkin. Kötturinn hennar neyðir hana í meikóver og eftir það breytist hún í ofurhúsmóður. Ritstjórn Lötu stelpunnar finnst sagan táknræn fyrir kraftinn sem samfélagið setur í að uppfylla staðalímyndir. Pennar vefsíðunnar leita fjölbreyttra leiða til að koma á kynjajafnrétti og miðla þeim hér. Ritstjórnin fékk styrk frá Hinu húsinu til skapandi sumarstarfs. Við kunnum Hinu húsinu bestu þakkir fyrir. Ef þú vilt hafa samband sendu þá tölvubréf á latastelpan@gmail.com.

Rakel

fimmtudagur, júní 15, 2006

19. júní- bleikur dagur á dagatalinu

Á dagatalinu eru fjölmargir rauðir dagar. Nokkur dæmi um þá eru 17. júní, uppstigningardagur, jóladagur, páskadagur og fleira en þá eru allir í fríi og gera sér glaðan dag. Ég legg til að 19. júní verður gerður að bleikum degi- degi jafnréttis.
Mætum öll niður í bæ 19. júní, íklædd bleiku, með bleika fána, blöndum bleika drykki og sendum jafnréttiskveðjur í útvarpið.

Brynja

miðvikudagur, júní 07, 2006

Nemendur skoða kynímyndir á MTV
Viðamikið jafnréttisverkefni félagsfræðikennara við Menntaskólann í Kópavogi tryggði skólanum jafnréttisviðurkenningu Kópavogsbæjar í dag.

Jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar veitti í dag árlega jafnréttisviðurkenningu sína í fimmta sinn. Í þetta skiptið féll viðurkenningin Menntaskólanum í Kópavogi í skaut og veitti Margrét Friðriksdóttir skólameistari henni viðtöku.

Helsta ástæða tilnefningar MK til jafnréttisverðlaunanna er verkefni sem er í gangi í félagsfræði við skólann undir stjórn Garðars Gíslasonar, sem einnig er upphafsmaður verkefnisins.

Jafnréttisverkefnið er samvinnuverkefni skóla í sex löndum, Íslandi, Noregi, Belgíu, Spáni, Eistlandi og Armeníu. Verkefnið er styrkt af menntastofnun Evrópusambandsins. Nemendur eiga að rannsaka birtingarmyndir kynímynda í umhverfi sínu, t.d. í sögum, bíómyndum, tónlistarmyndböndum og ævintýrum. Þau reyna að túlka skilaboðin sem t.d. myndbönd á MTV senda ungu fólki. Krakkarnir eru síðan í sambandi við nemendur hinna skólanna í gegnum tölvupóst og á MSN og bera saman bækur sínar.

Þriðja og síðasta starfsár verkefnisins er gengið í garð og í vetur mun viðfangsefnið vera heimilisofbeldi.


GOTT MÁL !