fimmtudagur, desember 02, 2004

Karlar eru körlum verstir

Ég las í bók um daginn sögu um mann skrifaða af syni hans. Faðirinn hafði verið heilbrigðið uppmálað, í góðu formi, hófmaður á allan hátt og allt í besta lagi. Það er þangað til hann lést „óvænt“ úr krabbameini.

Honum hafði verið kennt að sannur karlmaður horfir fram hjá sársaukanum og tekur hann út fyrir liðið eða þá ættjörðina. Fyrir honum var það skylda karlmanns að sjá fyrir fjölskyldu sinni sama hvað gengur á. Það fólst meðal annars í því að vinna mikið og fórna sér fyrir fyrir fjölskylduna á alla hátt. Faðirinn stærði sig af því að hafa aldrei látið smá kvef eða veikindi hindra sig í að mæta til vinnu.

Þegar hann byrjaði að eiga í vandræðum með hægðirnar notaði hann hægðarlyf, þegar hann tók eftir blóði í þeim taldi hann sér trú um að það væru leifar af tómötum eða einhverju álíka. Þegar hann loksins þoldi ekki meir og leitaði til læknis var það of seint. Hann dó með ársveikindaleyfi uppsafnað.

Forréttindi karlmenskunnar eru dýrkeypt. Styttri líftími, léleg heilsa, tilfinningagrunn sambönd og minni tími með ástvinum fylgja pakkanum. Að meðaltali lifa karlar sjö árum styttra en konur. Karlar neyta áfengis og tóbaks í meira mæli en konur sem veldur aukinni sjúkdómahættu og slæmri heilsu og ofan á þetta þá leita þeir síður læknishjálpar þegar eitthvað bjátar á. Karlar eiga frekar til að taka þátt í ofbeldisverkum og áhættuhegðun heldur en konur.
Karlennskuímyndin innrætir körlum að fela sársauka sinn og takast ekki á við hann.


Þetta finnst mér ansi góður punktur. Karlar þurfa að gera sér grein fyrir óheilbrigðri karlmennskuhegðun sinni. Þeir þurfa að gera sér grein fyrir skaðanum sem þeir eru að gera öðrum og sjálfum sér og meta hvort kostnaður karlmennskunnar sé hennar virði.


Sveinn Guðmundsson.

Engin ummæli: