sunnudagur, febrúar 20, 2005

Klám og klámvæðing


Þriðja gleðikvöld ungliðahóps Femínistafélags Íslands


Þriðjudaginn 22. febrúar 2005

Kl. 20:00

Í Hinu húsinu

-Nýi salurinn í gamla pósthúsinu-


Sóley Stefánsdóttir

-Meðlimur í staðalímyndahópi FÍ-

og

Hjálmar Sigmarsson

-Meðlimur í karlahópi FÍ-

tala um klám og klámvæðingu


Trúbadorinn Þórir spilar og syngur

Umræður og veitingar


www.ungfem.blogspot.com

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

PoppTíví

Mér finnst að stjórnendur PoppTíví þurfi að fara að taka meiri ábyrgð á því hvað er sýnt þar og sýna smá þroska. Þar eru allan daginn sýnd tónlistarmyndbönd sem eru mörg hver 100% klámvæðing. Myndböndin eru við lög sem innihalda texta á við þennan: “Komdu hórunni þinni á framfæri, ég kem henni í verð, af því ég þarf fjögur sjónvörp og Mercedes Benza, því sex hórur gera melludólg ríkan, ég borga tíkinni ekki neitt”. Þetta er úr laginu P.I.M.P með 50cent sem rappaði í Laugardalshöllinni í sumar. Það eru samt ekki bara myndböndin sem eru glötuð að mínu mati heldur einnig þættirnir og þá aðallega The Man Show og annar þáttur sem mig minnir að heiti Stripperella en hann fjallar um ofurbeib sem er leynilögga.

Ég horfði á The Man Show á mánudaginn og komst að því að hann er niðurlægjandi jafnt fyrir konur og karla. Þátturinn á að vera fyndinn en hann bara er það ekki! Því miður. Þannig að hann er ekkert nema bara niðurlægjandi. Samkvæmt þættinum eiga karlar bara að hafa gaman af því að drekka bjór, horfa á brjóst og íþróttir, stunda tilfinningalaust kynlíf og spila fjárhættuspil. Konur eiga hins vegar að vera lauslátar og til í allt, grannar, með stór brjóst og stinnan rass. Hér fyrir neðan eru nokkur atriði úr þættinum sem styðja þessa greiningu á hvernig konur og karla eigi að vera. Er þetta fyndið???

1. Þáttastjórnendur ræða um hvort ekki sé hægt að finna upp fjarstýringu sem virkar á konurnar þeirra þannig að hægt sé t.d. að ýta á pásu, spóla yfir túr og spóla til baka í upphaf samfara og ýta á repete þar.

2. Innslagið: How to get laid? Eða á íslensku: Hvernig áttu að fá að ríða?
Spurðu hana hvernig dagurinn hennar var
Þóstu hafa einhvern áhuga
Troddu honum inn

3. Spurningar úr sal, áhorfendur spyrja þáttastjórnendur ráða við vandamálum sínum. Ein af þremur spurningum hljómaði svona: Hvað má líða langur tími frá því ég fæ það þangað til ég get kveikt á íþróttarásinni? Svarið var: Hafðu kveikt á íþróttarásinni á meðan þið gerið það.

4. Um miðjan þátt kom langt atriði sem hét: Safn pirrandi kvenna og kom þar augljóslega í ljós hvernig konur eiga ekki að vera. Pirrandi konur eru þessar:

a. Blómasölukonur á veitingastöðum. Karlinn verður að kaupa rós handa konunni sem hann er með á stefnumótinu ef hann vill fá að ríða eftir matinn.

b. Fatafella sem hugsar bara um viðskiptin og setur takmarkanir og reglur eins og bannað að snerta og að borga þyrfti meira ef hún ætti að fara úr öllum fötunum.

c. Mamma. Konan sem leikur móðurina segir að þegar Jimmy fæddist hefði hann verið með svo lítið typpi að hún hefði haldið að hann væri stelpa, þetta var sem gefur að skilja mjög niðurlægjandi fyrir Jimmy. Þá fór mamman að segja hvað Adam hefði nú haft gaman af jazzballet á yngri árum og var mikið hlegið yfir því en það er greinilega það versta sem ungur strákur getur haft að áhugamáli, því dans er auðvitað bara fyrir stelpur og homma.

d. Stórglæsilegar og ofurfallegar konur sem eru svo með typpi þegar þær fara úr fötunum.

Þetta er ekki skemmtilegt sjónvarpsefni. Sýnið eitthvað annað!

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

laugardagur, febrúar 12, 2005

Ég vil benda á viðtal við landlækni sem birtist í DV í gær.
Þar koma fram hryllilegar staðreyndir þess efnis m.a. að unglingstúlkur hafi verið þvingaðar til kynferðismaka til þess að komast inn í partý. Landlæknir hvetur femínistia til aðgerða.
Ég veit ekki alveg hversu rétt DV fer með það sem landlæknir hefur sagt, það hlýtur að teljast heiður að kallað sé á okkur til að bjarga þarna næstum heillri kynslóð, sem landlæknir kallar "klámkynslóðina".
En samt er þetta hið furðulegasta mál, við erum líklegasta ein hötuðustu samtök á Íslandi, fáum enga styrki frá hinu opinbera, en samt erum við þau samtök sem landlæknir kallar fyrst á til athafna.
Kjarni málsins hlýtur að vera sá að heimsmynd einhverja einstaklinga innan þessarar kynslóðar er stórlega brengluð. Stúlkum á grunnskólaaldri finnst jafnvel sjálfsagt að þær stundi endaþarmsmök þó svo þær hafi enga ánægju af og segja eins og landlæknir benti á, að þær verði að "venjast þessum fjanda".
Landlæknir segir síðan að femínistar ættu að hugsa meira út í þetta mál en gamla málshætti í dagbókum. Staðreyndin er sú að aðeins hefur verið talað um þessa málshætti á spjallinu á femínistavefnum, sem er auðvitað hið besta mál, einhverstaðar fer þá umræðan fram.
Það sem landlæknir áttar sig e.t.v. ekki á (sem er kannski frekar DV að kenna, ég veit það ekki) er að þetta hangir allt saman á sömu spýtunni.
Ef það þykir bara svaka sniðugt að stærsta prentfyrirtæki á landinu gefi út dagbók fyrir almennan markað með niðurlægjandi málsháttum um konur þá er ekki skrýtið að fólk leyfi sér að hugsa um konur á þennan sama niðurlægjandi hátt. Dropinn holar steininn.
Nú standa kannski einhverjir upp og segja að við höfum engan húmor fyrir þessu en prófum þá bara að snúa dæminu við og í staðinn fyrir að birta þarna einungis niðurlægjandi málshætti um konur, þá væru þarna bara niðurlægjandi málshættir um svart fólk, eða kannski bara rasistabrandarar. Hversu sorglegt væri þetta þá?
Ég held að allir femínistar, opinberir sem óopinberir, láti sig þetta hryllilega mál sem landlæknir talaði um, sig varða, alveg eins og öll önnur mál þar sem ójafnrétti kemur svona sterkt fram...að sjálfsögðu!

Kv.
Bryndís Björgvinsd.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Kvenleg og karlleg gildi...

Nú er ég búin að vera að læra alveg heilmikið í skólanum um tvíhyggju og eðli í tengslum við umræðu um kyn. Um aldamótin 1900 spruttu upp miklar umræður um eðli kynjanna og var þetta mismunandi eðli staðfest með líffræðilegum og læknisfræðilegum rannsóknum hversu réttmætar sem þær nú voru. Samkvæmt þessu voru til dæmis eiginleikar karla: Rökvísi, skynsemi, vitsmunir og réttlæti. Eiginleikar kvenna voru þá: Órökvísi, umhyggja og þær stjórnuðust frekar af tilfinningum og innsæi en vitsmunalegri hugsun. Ekki ætla ég að segja til um hversu mikið eimir enn af þessum eðlis- og tvíhyggjuhugmyndum í dag en þó eru alls kyns hugmyndir ríkjandi um kynin sem enn er verið að reyna að útskýra með tilvísun til líffræðilegra eiginleika. Til dæmis er því í fyrsta lagi haldið fram að konur geti ekki bakkað í stæði og í öðru lagi er það útskýrt með tilvísun til hormóna.

Það að hægt sé að skipta eiginleikum í karllega og kvenlega finnst mér ekki skipta höfuðmáli heldur það að þeir eiginleikar sem taldir eru kvenlegir hafa ekki sama virðingarsess í þjóðfélaginu. Ef bara er litið til launa þá eru leikskólakennari með þriggja ára háskólamenntun og tölvunarfræðingur með þriggja ára háskólamenntun ekki með sömu laun og skiptir þá engu hvort það er karl eða kona sem gegna hvorri stöðunni fyrir sig. Það sem skiptir máli í þessu er að leikskólakennari vinnur með kvenleg gildi, uppeldi, tilfinningar, umönnun og umhyggju meðan tölvunarfræðingurinn vinnur með karlleg gildi rökhugsun og skynsemi og þar af leiðandi er leikskólakennarinn með miklu miklu lægri laun.

Þess vegna segi ég, er ekki kominn tími aftur á að femínistar vinni að því að upphefja þessi gildi sem talin eru kvenleg? Ég held ekki að jafnrétti náist með því að allir einbeiti sér aðeins að karllegum gildum því þjóðfélagið starfar ekki án leikskólakennara og hjúkrunarfræðinga. Forsendan fyrir því að fólk vilji samsama sig hinum kvenlegu eiginleikum og jafnvel velja sér starf sem inniheldur þá er að þeir verði hafnir til sömu virðingar og aðrir eiginleikar og gildi.

Hvað finnst ykkur???

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir