föstudagur, október 28, 2005

Konur er konum bestar!

Ég var eins og í leiðslu alveg frá því að augun opnuðust morguninn 24. október 2005. Frá því skammdegið lagðist yfir eyjuna hef ég átt óskaplega erfitt með að drösla mér fram úr bælinu á morgnana en þennan morgunn stökk ég nánast á fætur. Í hátíðarskapi brunaði ég í skólann og eftir að hafa hlustað óþreyjufull á fyrirlestur kennarans brunaði ég aftur af stað til þess að hitta Ungliðahópinn. Á götunum mátti alls staðar sjá konur - allskyns konur. Þótt klukkan væri bara rétt rúmlega hádegi var veislubragur yfir femínistunum og dreginn var fram gítarinn og spilað Áfram Stelpur! Andrúmsloftið var rafmagnað og umræðurnar sífellt heitari.

Það voru ekki gæfulegir karlmenn sem urðu á mistök þennan dag. Þennan dag var ég kona sem þorði, gat og vildi.

Eftir að hafa hlustað nokkra umganga á plötuna Áfram stelpur var ferðinni heitið í annan stelpuklúbb. Á leiðinni í gegnum bæinn sló klukkan 14:08, konur lögðu niður vinnu, Rás 2 spilaði þemalag dagsins Áfram stelpur og það fór um mig gleðihrollur. Í næsta hópi voru kröfuspjöld sett saman í flýti og arkað af stað í átt að Skólavörðuholti. Á leiðinni voru konur, á holtinu voru konur og í göngunni voru konur. Konur í fríi því það var Kvennafrídagur.

Í magnaðri stemmningu niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti voru konur samstíga. Ég hrópaði mig hása, bjó til bylgjur með konunni hliðina á mér, passaði upp á vinkonur mínar og fílaði mig í botn í kröfugöngu, ásamt 50.000 kynsystrum mínum, fyrir virðingu og viðurkenningu á mínu kyni.

Ég hef nýtt mér þennan kraft sem dagurinn gaf mér. Hver og ein okkar verður að taka til í sínu horni. Verum gagnrýnar og jafnvel smámunasamar um umhverfi okkar. Látum ekkert óréttlæti óáreitt. Ef við gerum það ekki, gerir það enginn!

Eva Bjarnadóttir

miðvikudagur, október 26, 2005

NÝIR FÉLAGAR!

Nýir félagar eru ávallt velkomnir í hópinn! Hafið samband við ráðskonu hópsins Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur í síma 690-3565 eða með tölvupósti stg3@hi.is. Næsti fundur hópsins verður haldinn föstudaginn 28. október kl. 16 á Kaffi Kúltúr. Allir velkomnir!

mánudagur, október 24, 2005


KRÓNA KONUNNAR

Þetta er króna konunnar.
Í hana vantar 35%
Heildaratvinnutekjur kvenna eru 35% lægri en heildaratvinnutekjur karla á Íslandi.
Konur eiga því 35% minni pening en karlar.

Þetta er ekki jafnrétti.

VIÐ KREFJUMST ÞESS AÐ KRÓNA KVENNA VERÐI GERÐ JAFNSTÓR OG KRÓNA KARLA!

Staðreyndir:
Menntunarbilið hefur verið brúað en launabilið ekki.
Um 15% hreinn launamunur mælist á kynjunum, þ.e. konur fá 15% lægri laun fyrir sömu störf og karlar með sömu menntun og reynslu.
Hefðbundin kvennastörf eru metin til lægri launa en hefðbundin karlastörf.
Konur vinna frekar ólaunuð störf innan heimilis en karlar og taka því oftar að sér hlutastörf á hinum almenna vinnumarkaði.

VINNA KVENNA ER JAFNVERÐMÆT OG VINNA KARLA.
VIÐ ÞURFUM ÖLL AÐ TAKA AFSTÖÐU GEGN LAUNAMUNI KYNJANNA!

föstudagur, október 21, 2005

KYNLEGT ÆVINTÝRI!

Þessi saga var sett í kommentakerfi á bloggsíðu hjá vinkvennahópnum mínum af honum Alla. Hún er bara svo fyndin að ég verð að deila henni með ykkur :o)

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

Einu sinni var ...

Endur fyrir löngu, í landi langt langt í burtu, rakst falleg, sjálfstæð og sjálfsörugg prinsessa á frosk þar sem hún sat og velti vöngum yfir vistfræðilegum álitamálum við bakka ómengaðrar tjarnar á fagurgrænu engi nálægt kastalanum sínum. Froskurinn stökk upp í kjöltu prinsessunnar og sagði: Fagra frú, ég var eitt sinn gjörvilegur prins en grimm norn lagði á mig álög. Ef þú smellir á mig einum kossi mun ég aftur verða að þeim snotra prinsi sem ég raunverulega er. Þá getum við, mín kæra, gifst og stofnað heimili í kastalanum þínum. Þú getur framreitt málsverði fyrir mig, þvegið klæði mín, alið börnin mín og fundið til þakklætis og hamingju um alla eilífð.

Sama kvöld sat prinsessan yfir málsverði sínum – léttsteiktum froskalöppum og hló lágt með sjálfri sér: Ég held nú fokking síður!

fimmtudagur, október 20, 2005

SAGAN HENNAR MÖMMU


Hér fyrir neðan er sagan hennar mömmu (það er gaman að líta upp til flottra kvenna, sérstakleg þegar þær eru mömmur mans). Sagan er dæmisaga um að það er allt hægt og á sérstaklega að vera hvatning fyrir þær góðu konur sem eru úti á landi, í útlöndum eða á sjónum að taka þátt í fríinu þrátt fyrir engan skipulagðan fund. Mótmælin felast í einstaklingsframtakinu!

Árið er 1975, mamma er tvítug og með rauðar fléttur í hárinu. Um miðjan október var hún að leggja upp í sína aðra ferð á millilandafraktskipinu Fjallfossi. Í þetta skiptið var ferðinni heitið til Póllands og Rússlands en skipið sigldi úr höfn frá Akranesi. Áhöfnin samanstóð af 25 karlmönnum og þremur konum sem allar unnu sem þernur, þar á meðal mamma.
Mamma hafði þegar í fyrstu ferðinni valdið uppþotum á skipinu þegar hún í þöglum mótmælum gegn kvenfyrirlitningu í matsalnum hengdi upp miðjuplakatið úr Playgirl við hliðina á plakatinu með beru stelpunni úr Playboy. Þegar þarna var komið við sögu hafði skipið verið aðeins nokkra daga á sjó í annarri ferð mömmu og kvennfríið stóð fyrir dyrum. Daginn áður hvatti hún samstarfskonur sínar til að standa með sér í fríinu en þær voru nokk ragar við það og svolítið hræddar. Baráttugleði mömmu sannfærði þær og ákveðið var að mæta ekki til vinnu þann 24. október.

Venjulegur vinnudagur hófst kl. 8 að morgni en konurnar á Fjallfossi lágu þá enn í rekkju. Það fréttist um skipið að konurnar væru að mótmæla og um tíuleytið komu skipherra, 1. vélstjóri og 1. stýrimaður niður í káetu til þeirra og færðu þeim kopp, klósettrúllu og handklæði þar sem þær lokuðu sig þarna inni. Þeir hlógu sjálfir manna hæst og héldu að með þessi sprelli sínu væri gamanið búið og stelpurnar myndu drattast á lappir og vinna sína vinnu. Þeim varð ekki að ósk sinni því mamma hvatti til þess að þær yrðu í náttsloppunum allan daginn.

Mennirnir í undirmannamessanum gengu í störf kvennanna og skiptu verkum sín á milli. Einn þreif djúpa diska, annar hnífa, sá þriðji gaffla og fjórði skeiðar. (Karlarnir voru víst voða ánægðir að afreka þetta.) En í yfirmannamessanum var brytinn ræstur út sem var ýldumyglaður yfir að þurfa að ganga í störf stúlknanna og vaska upp könnur og glös eftir skipherrann og mennina hans (það var ekki möguleiki að þeir gerðu það sjálfir). Þegar leið á daginn var andrúmsloftið um borð orðið ansi þrúgað, menn voru fúlir og komu trekk í trekk niður til að hvetja konurnar að koma upp og vinna. Þetta væri ekkert fyndið lengur...

Þær þrömmuðu í matsalinn (vinnustað sinn) og fengu sér að borða, á náttsloppunum og þær þrömmuðu til loftskeytamannsins, á náttsloppunum. Loftskeytamaðurinn varð mjög taugaveiklaður þegar þær komu að máli við hann til að senda skeyti á baráttufundinn á Lækjartorgi sem fram átti að fara þennan dag. Hann spurði þær aftur og aftur hvort þær ætluðu í alvöru að senda það og ætlaði hreinlega ekki að þora að gera það fyrir þær. En þær fengu sitt fram og eftirfarandi skeyti var morsað á fundinn:

utifundur a lækjartorgi
24 okt
reykjavik

m/s fjallfoss staddur a 61,14 gradur nordur og 01,40 gradur vestur
sendum barattu kvedjur i tilefni dagsins
stöndum saman jafnt a sjo sem landi
Kristin gyda regina m/s fjallfoss


Daginn eftir voru konurnar vaktar áður en þær áttu að mæta til vinnu. Sendimaður frá skipherra flutti þau boð að þær skyldu koma rakleiðis til fundar við skipherrann. Nú áttu þær að fá það óþvegið, nú yrði messað yfir þeim, hugsuðu þær með sér.

Þegar upp kom opnaði skipherra og tók blaðskellandi á móti þeim. Mamma hafði ekki áður fengið að koma þarna inn og fannst það bara svoldið gaman. Hann bauð þeim sæti og þær fengu kaffi og með því (gott ef þær fengu ekki bara í glas líka). Hann hafði gleðifregnir að færa. Konan hans hafði hringt í hann í gegnum radíóið og spurt hvurslags frábæru konur hann hefði þarna um borð. Skeytið frá konunum á Fjallfossi hafði verið lesið upp á fundinum og vakið stormandi lukku sagði hún og tíundaði það við hann að hann væri heppinn að hafa svona konur um borð. Karlinum var snúið einn, tveir og þrír og nutu þær góðs af þessu það sem eftir var ferðarinnar.

Mamma fór ekki fleiri ferðir með Fjallfossi en ég vona að verkfallið hafi skilað einhverju til frambúðar. Ég vona að kröfugangan okkar á mánudaginn komi til með að skila einhverju til frambúðar.

Stöndum saman jafnt á sjó sem landi!
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

þriðjudagur, október 18, 2005


HVERS VEGNA KVENNAFRÍ?

…atvinnutekjur kvenna eru aðeins 64,15% af atvinnutekjum karla
…konur eru með 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma
…barneignir hafa neikvæð áhrif á laun kvenna en jákvæð áhrif á laun karla
...margar konur búa við öryggisleysi og ógn á heimilum sínum
…ein af hverjum þremur konum verður fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni
...konur uppskera ekki í samræmi við menntun sína
…konur í fyrirtækjarekstri hafa verri aðgang að fjármagni…ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfum er enn að mestu á höndum kvenna
...umönnunarstörf eru með lægst launuðu störfum á vinnumarkaði
...rödd kvenna er veik í fjölmiðlum
...litið er á líkama kvenna sem söluvöru
…kona hefur aldrei verið forsætisráðherra, bankastjóri eða biskup
...konur hafa aldrei verið helmingur þingmanna
...konur njóta ekki jafnréttis á við karla
....þessu þarf að breyta. Ég þori, get og vil!

KONUR SÝNUM SAMSTÖÐU

Leggjum niður störf á Kvennafrídaginn 24. október kl. 14.08 og fyllum miðborgina svo eftir verði tekið – eins og fyrir 30 árum.
Hittumst á Skólavörðuholti kl. 15 og förum í kröfugöngu.
Baráttufundur á Ingólfstorgi kl. 16.

mánudagur, október 17, 2005

Reuters
Pamela prýðir bókasýninguna í Frankfurt
Bókasýningin í Frankfurt hefst formlega í vikunni. Þessi sýning er stærsta bókasýning heims og að þessu sinni verður hún einkum helguð kóreskum bókmenntum. Án efa mun þó þetta risastóra veggspjald, með mynd af kynbombunni Pamelu Anderson, ekki vekja síðri athygli en kóresku bækurnar en starfsmenn sýningarinnar voru í morgun að ljúka við að festa myndina á vegg sýningarhallarinnar í Frankfurt
. Sjá www.mbl.is

-Er þessi bókasýning svona óáhugaverð að aðstandendur hennar þurfa að veifa risastóru brjóstaplakati til að fólk komi á sýninguna ?

Brynj H

miðvikudagur, október 05, 2005

Ansi skemmtileg síða sem bent var á á póstlista femínistafélagsins.

Smellið á slóðina hér að neðan, smellið á mynd, leyfið henni að hlaðast inn, settu músina yfir myndina og sjáðu hvernig hún var FYRIR breytingar.

http://www.glennferon.com/portfolio1/index.html

Stærri rassar, minni rassar, stærri brjóst, fellingar burt, nýtt litaraft o.s.frv. o.s.frv.


Steinunn G.G.