Gleðikvöld ungliðahópsins tókst með eindæmum vel og var fullt hús. Þegar mest var töldu starfsmenn Hins hússins 70 manns. Áhuginn er mikið gleðiefni fyrir femínista og fór kvöldið fram úr björtustu vonum.
Gísli Hrafn, mannfræðingur, steig fyrstur á stokk og fræddi okkur um sögu femínismans. Sagan er löng en þó svo stutt. Konur hafa barist fyrir réttindum sínum frá örófi alda en þó er svo stutt síðan að sú barátta fór að sýna árangur. Árangurinn hefur verið hægur og ekki í samræmi við þá baráttu sem háð hefur verið og ekki í samræmi við almennan vilja fólks til jafnréttis. Gísli skilgreindi femínista sem fólk sem trúir því að jafnrétti hafi ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Að endingu svaraði hann þeirri spurningu sem hann ávallt fær við svona tækifæri, afhverju hann sé femínisti þar sem hann er karl. Ætti hann ekki bara að njóta þeirra forréttinda sem felast í því að vera karlkyns? Hann svarar því á þá leið að hann trúi á jafnrétti og hann vilji þar með ekki búa í samfélagi sem veitir honum sérréttindi einungis vegna kyns hans. Einnig nefndi hann að hann vilji ekki búa í samfélagi sem segir hann vera "villidýr" sem ekki ráði við sig og eigi þar með rétt á að beita konur ofbeldi.
Katrín Anna, talskona Femínistafélagsins, ræddi um "normaliseringu" kláms og ofbeldis á konum og um karlrembuna. Tók hún sem dæmi ummæli ritstjóra b&b blaðsins um að blaðið ætti að höfða til karlrembunar (n.b. ekki karla). Hún skilgreindi orðið karlremba samkvæmt enskri orðabók, þar sem það fyrirfinnst ekki í íslenskum, sem "karl sem samþykkir lægri stöðu kvenna í þjóðfélaginu". Karlremba fer þannig ekki saman við jafnrétti þar sem takmarkið er gjörólíkt. Femínistar hafa bent á þessa staðreynd og hafa barist fyrir því að klámblöð og annað klámfengið efni sé ekki til sýnis á almenningsstöðum (s.s. í verslunum, opnum sjónvarpsstöðum) þar sem það staðfestir karlrembuna og þar með viljann til þess að staða kvenna sé lægri í þjóðfélaginu.
Umræðurnar voru líflegar og greinilegt að ungt fólk hefur mikið um jafnrétti að segja. Rætt var um poppmenninguna og kvenfyrirlitningin sem þar fyrirfinnst, um afstöðu dómsstóla til ofbeldis á konum og síðast en ekki síst um mikilvægi þátttöku til þess að berjast gegn þessu. Grundvallaratriði er að ræða málin og vera óhræddur við að tjá skoðanir sínar, öðruvísi náum við ekki árangri. Ekki geta allir verið sammála og kom það oft fram á fundinum að innan Femínistafélagsins eru margskonar skoðanir. En öll getum við verið sammála um að vilja jafnrétti og hvert og eitt okkar getur fundið sitt málefni innan þess ramma.
Hljómsveitirnar Nilfisk og Bob enduðu kvöldið með frábærum tónlistarflutningi. Við þökkum þeim innilega fyrir komuna og fyrir stuðninginn við jafnrétti á Íslandi. Einnig viljum við færa Hinu húsinu þakkir fyrir góðar viðtökur og stuðning.
fimmtudagur, október 28, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli