mánudagur, september 26, 2005

Um vísindakonur.

Vídjótímar hafa alltaf verið vinsælir meðal nemenda í kennslustundum og var einn slíkur í stjörnufræðitímanum í dag. Við horfðum á þáttinn “The planets” þar sem tunglið var tekið til sérstakrar athugunar. Í þættinum voru tekin fjölmörg viðtöl við sovéska og bandaríska vísindamenn sem áttu þátt í að koma fyrstu mönnunum til tunglsins. Ég tók strax eftir því að aðeins einn viðmælendanna var kona, enda fáar konur í vísindum á þessum tíma. Þessi kona var doktor í efnafræði og átti mikilvægan þátt í að efnagreina bergsýni frá tunglinu. Það fáránlega við þetta allt saman var hinsvegar, að viðtölin sem tekin voru við vísindakarlana voru tekin upp á eldflaugapöllum eða á rannsóknarstöfum þar þeir voru að handleika sýni en viðtalið við konuna var tekið upp í eldhúsinu hjá henni þar sem hún var að skræla kartöflur!! Hvað er eiginlega í gangi hérna?? Er vísindakonan búin að ráðast um of á veldi vísindakarlanna, orðin of “karlaleg”, þannig að þörf er á að gera hana aðeins “kvenlegri”??

Svo að ég fái að ausa enn frekar úr jafnréttis- og reiðibrunni mínum, þá er eftirfarandi klausa tekin úr stjörnufræðibókinni minni, “Samtíningur í stjarnfræði”. Hana er hægt að nálgast í bóksölu MR.

“Iðustraumar þessir [iðustraumar í möttli jarðar] eru ekki ósvipaðir því sem hin dæmigerða húsmóðir í vesturbænum hefur orðið vitni að í venjulegum súpupotti, heitur vökvi rís á einum stað en kólnar við yfirborðið og sekkur aftur niður í djúpið á öðrum stað.”

Þetta þykir mér algjörlega óþörf líking og hvað þá að hafa hana í kennslubók! Hún endurspeglar augljóslega lélegan karlrembuhúmor höfundar sem er algjörlega óviðeigandi í bók sem þessari.

Til þess að enda þetta á léttu nótunum við ég koma því að, að sjónvarpsauglýsingarnar frá VR eru geggjaðar. Luv them.

Ásdís Egilsdóttir

föstudagur, september 23, 2005

Viðskiptafræðikennari með jafnréttishugsjón?

Já, viðskiptafræðin er ekki endalaus skemmtun þótt hann Mankiw geti auðveldlega glatt mitt stóra hjarta. Vandinn er sá að viðskiptafræðikennarinn er sneyddur allri jafnréttishugsjón og segir oft eitthvað miður skemmtilegt sem fer verulega í taugarnar á mér.

Dæmi, (haft eftir kennaranum):

"Setjum sem svo að hjón með 3 börn séu bæði útivinnandi. Öll börnin eru á leikskólaaldri og augljóslega eru því leikskólagjöldin á því heimili afar há. Þá er spurning hvort hagstæðara sé fyrir mömmuna að vinna úti fyrir leikskólagjöldunum eða gæta barnanna sjálf."

Hagstæðara fyrir mömmuna? Hvar kemur pabbinn inn í málið, Hr. Viðskiptafræðikennari?

Vissulega er mér ljóst að þessi ummæli kennarans gætu hafa verið sögð í flýti og án umhugsunar og því er honum að sjálfsögðu fyrirgefið. Vegna þessa atviks áttaði ég mig hinsvegar á því hversu gríðarlega mikilvægt það er að kennarar kenni út frá jafnréttissjónarmiðum. Kennarar eru fyrirmyndir og börn taka upp þær hugmyndir sem kennararnir halda uppi. Samfélagið okkar á að heita jafnrétissinnað og því ber kennurum skylda að kenna í anda jafnréttis í stað úreltra og andfeminiskra gilda.

Viðskiptafræðikennarinn minn er engu að síður viðkunnalegur náungi og mér líkar alveg ágætlega við hann. Ég þyrfti helst bara að mæla mér mót við hann og kenna honum sitthvað um feminsma.

Ásdís Egilsdóttir

sunnudagur, september 18, 2005

Láttu ekki útlitið blekkja þig!

Mig langar til að hrósa VR fyrir að rannsaka og afhjúpa launamun kynjanna. Einnig vil ég hrósa þeim þekktu Íslendingum sem tóku þátt í auglýsingaherferðinni. Helmingur þeirra sem fengu senda til sín fyrirspurn tóku þátt í rannsókninni. Niðurstöðurnar eru teknar af www.vr.is

Launamunurinn óbreyttur síðustu þrjú ár
Karlar hafa 23% hærri heildarlaun en konur, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR 2005. Kynbundinn launamunur, þ.e. þegar búið er að taka tillit til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs, stéttar og menntunar, er 14%. Þetta er óbreytt frá í fyrra. Samkvæmt niðurstöðunum hafa karlar 337 þúsund á mánuði að meðaltali í heildarlaun á móti tæplega 274 þúsund.


Ekki er marktækur munur á launamun kynjanna, hvort sem litið er til heildarlauna eða kynbundins launamunar, síðustu þrjú ár. Ekki er að sjá að aðrar tekjur kvenna, hlunnindi af einhverju tagi eða meiri sveigjanleiki í starfi vinni upp á móti þessum launamun. Kynið eitt kostar konur því tugi þúsunda á mánuði.

Karlar fá meiri hlunnindi og aðrar launagreiðslur
Það hallar verulega á konurnar þegar hlunnindi og önnur laun eru greind eftir kyni. Fleiri karlar hafa hlunnindi sem hluta af launakjörum, 75% á móti 66%. Þeir fá t.a.m. frekar síma og símakostnað greiddan, bílastyrk og /eða afnot af bíl, tölvu og tölvutengingu á heimilið. Bílastyrkur karla er marktækt hærri en kvenna, tæplega 16 þúsund á mánuði á móti rúmlega 12 þúsund hjá konum.

Rúmlega einn af hverjum tíu félagsmönnum fær önnur laun en þessar hefðbundnu launagreiðslur, s.s. bónus, sölulaun og afkastatengdar greiðslur. Fleiri karlar fá þessar greiðslur en konur, 12% á móti 8%, og eru karlar með tvöfalt hærri greiðslur eða 59 þúsund á mánuði að meðaltali á móti 28 þúsund hjá konunum.


Launamunur kynjanna, m.v. heildarlaun

Munur á meðallaunum Kynbundinn launamunur
2000 26% 18%
2001 25% 16%
2003* 22% 14%
2004 22% 15%
2005 23% 14%

* Launakönnun var ekki gerð árið 2002.


Brynja H

miðvikudagur, september 14, 2005

Viðskiptafræði rokkar!

Ég lá sveitt yfir viðskiptafræðibókinni minni í gær, Principles of Economics by Mankiw, því próf úr nokkrum köflum bókarinnar var í dag. Hann Mankiw á sko hrós skilið því jafnréttissinnaðri kennslubók hef ég aldrei lesið! Undarlegt en satt þá hreinlega brá mér fyrst þegar ég sá eftirfarandi málsgrein:

If the farmer devotes all his time to potatoes, he grows 32 ounces of potatoes. Conversely, if the rancher devotes all her time to potatoes, she grows 48 ounces.

Hérna er gengið út frá því að "the rancher" sé kona ólíkt þeirri venju að flokka mörg slík starfsheiti sem karlkyns, sbr. "Læknirinn fór á KFC. Hann keypti sér kjúklingaborgara." En Mankiw heldur áfram í bókinni og hikar ekki við að tala um "physicians" og "landlords" sem konur. Þessa jafnréttishugsun skortir flestar kennslubækur og því fær Mankiw gott og veglegt prik í hattinn frá mér. Ég get ekki beðið eftir því að láta Mankiw koma mér skemmtilega aftur á óvart og ætla því að sökkva mér aftur í lestur.

Lifi jafnréttissinnuð viðskiptafræði og GO Mankiw.

Ásdís Egilsdóttir

föstudagur, september 09, 2005

Bara stutt...

Vildi bara segja að ég er oft í femínistabolnum mínum sem stendur á "Föt fara konum vel" ég fæ mjög mikla athyggli út á hann og fólk kemur oft til mín og spyr mig út í bolinn. Ég var bara á Kaffibarnum í gær og tvær stelpur komu og spurðu mig út í þetta og hvar væri hægt að fá bolinn og svona. Ég mæli bara með að ef þið eigið svona femínistaboli að vera í þeim út um allt, bera út boðskapinn;)
Sjáumst á eftir
Nadira

fimmtudagur, september 08, 2005

Ertu draumakona hvers manns?

1.Manninn þinn langar til þess að njóta ásta og þú ert að drepast úr höfuðverk. Þú:
a)Tekur verkjapillu og lætur þig hafa það
b)Segir nei
c)Kyssir hann og knúsar og færð hann til að fresa því til morguns

2.Maðurinn þinn á í erfiðleikum í vinnunni og stoltið er verulega sært.Þú:
a)lítur á það sem hans vandamál og neitr að ræða málið
b)Gefur honum góð ráð
c)gerir allt sem þú getur til að styrkja særða egóið hans

3.Þú finnur "karlablöd" undir rúminu ykkar.Þú:
a)Öskrar á hann og krefst útskýringa
b)Skilur þau eftir þar sem þau voru
c)Dregur þau fram þegar vel liggur á ykkur og leggur til að þið skoðið þau saman til þess að krydda kynlífið

4.Þú áttir eriðan dag. Hvað gerirðu þegar maðurinn kemur heim?
a)Byrjará því að vorkenna þér um leið og hann kemur inn
b)Lætur ekki ergelsið bitna á honum
c)Biður hann um að setjast niður og ræða málin

5.Þið eruð ósammála um eitthvað málefni í marga daga.Þú færð sönnun fyrir því að þú hefur rétt fyrir þér. Þú:
a)Lætur málið falla niður
b)Veltir honum upp úr sannleikanum
c)Stillir þig um að hoppa af gleðiþergar þú serð svipinn á honum

6.Tengdamamma var vön að elda þungan og óhollan mat handa drengjunum sínum.Þú:
a)Viðheldur venjunni á kostnað heilsunnar
b)Minnkar skammtana og laumar einhverju hollu í matinn án þess að hann uppgötvi það.
c)Breytir matarræðinu fullkomlega og bannar honum að borða óhollan mat.

7.Maðurinn þinn er haldinn ósiðum.Þú:
a)Ert alltaf að skamma hann
b)Kvartar aldrei
c)Stríðir honum með ósiðunum

8.Þú heldur honum heljarinnar afmælisveislu og býður öllum vinum hans.Þeir verða dauðadrukknir og allt fer úr böndunum.Þú:
a)Yfirgefur samkvæmið.Boys will be boys
b)Hellir upp á kaffi
c)Kveikir á enska boltanum í sjónvarpinu

9.Maðurinn þinn er áhyggjfullur en neitar að tjá sig um malið´.Þú:
a)lætur hann í friði
b)Færð hann til að tala
c)Nöldrar íhonum þar tl allt sem í háa loft


Þetta var vikulegt persónuleikapróf úr Vikunni. Því undirgefnari sem kona er, því hærri stig fær hún og telst því "draumakona hvers manns" Ég hlaut 70 stig, og þar af leiðandi niðurstöðu. Mín niðurstaða segir í stuttu máli að ég sé langt frá því að vera draumadís og að "ég sé of ógnandi" Hefði ég fengið minna en 40 stig ætt ég að "slaka á og hætta gagnrýni", hefði ég fengið 125-155 stig ætti ég að "sýna meiri sveigjanleika" og ég hefði fengið 160-180 stig hefði kærasti minn "dottið í lukkupottinn!"

Ég hringdi í Vikuna í dag og bað um samband við ritstýru sem er víst í fríi. Lagð ég því fram formlega kvörtun en fékk í leiðinni svarið að þetta "hefði bara verið grín" "Grín" eður ei, þá bitnar það á konum sem stúlkum sem trúa því margar hverjar að undirgefni sé sjálfsagður og jákvæður eiginleiki í fari hverrar konu.

Einnig þykir mér þetta lítilsvirðing við karlmenn. Hví ættu sannir karlmenn að vilja persónulausa Barbíedúkku sem reynist þeim sem gólftuska?

Brynja H

þriðjudagur, september 06, 2005

Þóra fékk ryksugu

Þóra B. Helgadóttir, markvörður A landsliðs kvenna í knattspyrnu, var valin maður leiksins í viðureign Svíþjóðar og Íslands í undankeppni HM 2007 síðastliðinn sunnudag, en liðin mættust í Karlskoga í Svíþjóð. Í viðurkenningarskyni fékk Þóra afhenta forláta ryksugu að gjöf frá aðstandendum leiksins.

Þóra er afrekskona, í líkamlega góðu formi og dugleg þar að auki. -Er hún svo ógnandi að aðstendendum keppninnar finnist þeir knúnir til að halda henni "kvenlegri"? Hvaða skilaboð er verið að senda stúlkum sem vilja brjótast út úr glerbúrinu, verða sterkbyggðar og líkamlegir jafningjar drengja? Eiga þær frekar að svelta sig til hlýðni, fara í pils og ryksuga? Ég efast um að kærkomnu "Strákar okkar" í boltanum fái bjórkút eða bor í verðlaun þegar þeir vinna til verðlauna

Brynja H

mánudagur, september 05, 2005

Hjartfólgið nöldur

Eftirfarandi frétt er tekin af heimasíðu Morgunblaðsins:

Hjartveikar konur fá ekki sömu meðferð og hjartveikir karlar samkvæmt nýrri rannsókn
Konum sem bera einkenni hjartveiki er ekki sinnt jafn vel og körlum með sömu einkenni, að því er fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var um alla Evrópu og var kynnt í Stokkhólmi í dag. Niðurstöðurnar eru byggðar á rannsóknum á 3.779 sjúklingum í 32 löndum í Evrópu.

Þær leiddu í ljós að konur með verk fyrir brjósti eru ekki teknar eins alvarlega og karlar með brjóstverki, og þær fá ekki eins góða meðhöndlun og karlar. Konur með verki fyrir brjósti eru 20% ólíklegri en karlar til að vera settar í álagspróf, sem er fyrsta skref í því að staðfesta að um hjartveiki sé að ræða.

Í niðurstöðunum kom þó fram að nokkur bæting varð á meðferð á konum með einkenni hjartveiki á milli áranna 2000 og 2004. „Þetta er skref í rétta átt, en við verðum að gera meira til að koma fólki í skilning um að hjartveiki er alveg jafn mikið vandamál á meðal kvenna og karla,“ sagði Eva Swahn, yfirmaður sænsku hjartaverndarsamtakanna.

Hjartaáfall er algengasta dánarorsök kvenna í Evrópu og fleiri konur deyja af völdum þess en af völdum allra tegunda krabbameins. 55% kvenna deyja af völdum hjartaáfalls en 43% karla.


Orðin hér að ofan, um "nöldrandi" konur, með hönd fyrir hjartanu, ekki teknar alvarlega, koma mér ekki sérstaklega á óvart. Það sem sló mig einna mest var hversu hátt hlutfall kvenna deyr sökum hjartaáfalls. Ég kalla það hins vegar gott hjá sænsku hjartverndarsamtökunum að vekja athygli á málinu.

Brynja H