laugardagur, nóvember 20, 2004

Vændi

Á Íslandi er vændi til framfærslu bannað með lögum. Á hinum Norðurlöndunum er vændi hinsvegar ekki bannað en það er langt frá því að vera samþykkt eða viðurkennt. Svíar hafa hinsvegar tekið þá stefnu að refsa kaupendum vændis með því að gera kaup að vændi að lögbroti.
Vændi er alvarlegt félagslegt vandamál sem samfélagið þarf að takast á við. Það er hinsvegar ekki allir sammála hvernig taka á því vandamáli. Ýmsir hópar vilja ekki líta á vændi sem vandamál og finnst að samþykkja eigi vændi. Þeirra á meðal eru Frjálshyggjumenn.
Eftirfarandi er úr stefnuskrá Frjálshyggjunar:
Vændi skal vera leyft. Kynlíf er heimilt. Peningagreiðslur á milli manna eru heimilar. Kynlíf gegn greiðslu á einnig að vera heimilt…………Það er órökrétt að telja vændi ekki vera val vændiskvenna og vilja banna það, því valkosturinn, að fá ekki tekjurnar, geti verið svo slæmur. Sá sem vill banna vændi af slíkri ástæðu vill neyða vændiskonurnar til að taka enn verri kost, að þeirra mati.
Þetta er bara hluti úr vændisstefnu Frjálshyggjunar. Það er hægt að sjá hana í dýrð sinni hér.

Ég tel aftur að móti að við eigum ekki að samþykkja vændi og er þar af leiðandi ekki samþykk Frjálshyggjumönnum. Ég er reyndar á þeirri skoðun að við ættum ekki að gera vændiskonur að glæpamönnum en ég er langt frá því að við ættum að leggja viðurkenningu okkar á vændi.
Vændi er sala á konum svo einfalt er það. Þær konur sem stunda vændi búa flestar við bágar aðstæður, mjög margar eiga í fíkniefnavanda og margar þeirra hafa lent í kynferðislegri misnotkun. Kannanir hafa sýnt að 55-80% vændiskvenna hafa lent í kynferðilegri misnotkun. Félagslegur bakgrunnur kvenna einkennist því að mikilli eymd, það er þessi eymd sem veldur því að konur leiðast út í vændi. Sala á eymd annarra á ekki að vera samþykkt. Þess vegna vil ég eins og Svíarnir sjá að mönnum sem kaupa sér “þjónustu” vændikvenna verði refsað. Hvað sem Frjálshyggjumenn segja um að þetta sé val vændiskvenna þá er það einfaldlega ekki rétt. Maður þarf að taka tillit til fleiri þátta en hvort kona ákveður að gerast vændiskona eða ekki. Já, svona er þetta maður verður að líta á hlutina ekki bara útfrá hagfræðinni, markaðnum og framboði og eftirspurn.
Það er líka æðislegt það sem Frjálshyggjumenn gef í skyn að við ættum ekki að taka vændið af konunum og leiða þær út fátækt. En hlutirnir eru þannig að ekki allt snýst um peninga, hvort er verra að vera ekki í vændi og skorta pening eða vera í vændi og skaða sálina? Í alvörunni, viljum við að kynlíf verði bara eins og hver önnur þjónusta, sem þú getur notið ef þú getur greitt fyrir hana? Ef ég tala bara út frá siðferði þá tel ég að kynlíf sé eitt það mannlegasta sem við eigum og ég vil ekki leggja verðmiða á það.

Aðalbjörg Bjarnadóttir

Engin ummæli: