Morðið í Kópavoginum í gær, úrskurður héraðsdóms um daginn, fjöldi nauðgana og sifjaspella og tíðni heimilisofbeldis fær mig sem konu til þess að hugsa um stöðu mína gagnvart karlmönnum. Hvernig getur það staðist að svo stórt hlutfall kvenna verði fyrir kynbundnu ofbeldi einhvern tíman á ævinni og hvernig stendur á því að svo margir karlmenn beita konur ofbeldi?
Í gærkveldi fjallaði fréttaskýringaþáttur um ofbeldi á konum í Darfur héraðinu. Súdan er langt í burtu og erfitt að setja sig í spor þeirra sem þar búa en það er hollt hverjum manni að hugsa sig um augnablik. Þar er um þjóðarmorð að ræða líkt og í Rúanda á tíunda áratugnum. Karlar af arabískum ættum ætla að hrekja í burt allt þeldökkt fólk frá Darfur héraðinu og beita til þess markvissum aðgerðum til þess að þurrka út kynstofn þeirra. Börn eru sérstakt skotmark og eru sprengd, brennd, skorin og skotin. Konurnar þurfa þeir ekki að drepa því það nægir að nauðga þeim hrottalega og brennimerkja með arabískum táknum, þá vita allir að þær eru "ónýt vara" og geta ekki gifst eða eignast börn.
Í Darfur hafa karlmennirnir ákveðið markmið og nota líkamlegan styrk sinn og yfirráð yfir vopnum til þess að níðast á konum og börnum. Á Íslandi hafa karlmenn ekki sameiginlegt markmið en níðast þó samt á konum sínum og jafnvel börnum. Hvað veldur?
Getur verið að í samfélagi þar sem dómari léttir vægi dóms vegna þess að ofbeldismaðurinn hafði fórnarlamb sitt grunað um framhjáhald að litið sé á ofbeldi á konum sem eðlilegt? Er líkamsárás inni á heimili léttvægari en líkamsárás inni á skemmtistað? Mun Magnús Einarsson fá léttari dóm fyrir að kyrkja eiginkonu sína heldur en ef hún hefði verið bróðir hans eða vinur?
þriðjudagur, nóvember 02, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli