föstudagur, október 28, 2005

Konur er konum bestar!

Ég var eins og í leiðslu alveg frá því að augun opnuðust morguninn 24. október 2005. Frá því skammdegið lagðist yfir eyjuna hef ég átt óskaplega erfitt með að drösla mér fram úr bælinu á morgnana en þennan morgunn stökk ég nánast á fætur. Í hátíðarskapi brunaði ég í skólann og eftir að hafa hlustað óþreyjufull á fyrirlestur kennarans brunaði ég aftur af stað til þess að hitta Ungliðahópinn. Á götunum mátti alls staðar sjá konur - allskyns konur. Þótt klukkan væri bara rétt rúmlega hádegi var veislubragur yfir femínistunum og dreginn var fram gítarinn og spilað Áfram Stelpur! Andrúmsloftið var rafmagnað og umræðurnar sífellt heitari.

Það voru ekki gæfulegir karlmenn sem urðu á mistök þennan dag. Þennan dag var ég kona sem þorði, gat og vildi.

Eftir að hafa hlustað nokkra umganga á plötuna Áfram stelpur var ferðinni heitið í annan stelpuklúbb. Á leiðinni í gegnum bæinn sló klukkan 14:08, konur lögðu niður vinnu, Rás 2 spilaði þemalag dagsins Áfram stelpur og það fór um mig gleðihrollur. Í næsta hópi voru kröfuspjöld sett saman í flýti og arkað af stað í átt að Skólavörðuholti. Á leiðinni voru konur, á holtinu voru konur og í göngunni voru konur. Konur í fríi því það var Kvennafrídagur.

Í magnaðri stemmningu niður Skólavörðustíg, Bankastræti og Austurstræti voru konur samstíga. Ég hrópaði mig hása, bjó til bylgjur með konunni hliðina á mér, passaði upp á vinkonur mínar og fílaði mig í botn í kröfugöngu, ásamt 50.000 kynsystrum mínum, fyrir virðingu og viðurkenningu á mínu kyni.

Ég hef nýtt mér þennan kraft sem dagurinn gaf mér. Hver og ein okkar verður að taka til í sínu horni. Verum gagnrýnar og jafnvel smámunasamar um umhverfi okkar. Látum ekkert óréttlæti óáreitt. Ef við gerum það ekki, gerir það enginn!

Eva Bjarnadóttir

Engin ummæli: