fimmtudagur, október 20, 2005

SAGAN HENNAR MÖMMU


Hér fyrir neðan er sagan hennar mömmu (það er gaman að líta upp til flottra kvenna, sérstakleg þegar þær eru mömmur mans). Sagan er dæmisaga um að það er allt hægt og á sérstaklega að vera hvatning fyrir þær góðu konur sem eru úti á landi, í útlöndum eða á sjónum að taka þátt í fríinu þrátt fyrir engan skipulagðan fund. Mótmælin felast í einstaklingsframtakinu!

Árið er 1975, mamma er tvítug og með rauðar fléttur í hárinu. Um miðjan október var hún að leggja upp í sína aðra ferð á millilandafraktskipinu Fjallfossi. Í þetta skiptið var ferðinni heitið til Póllands og Rússlands en skipið sigldi úr höfn frá Akranesi. Áhöfnin samanstóð af 25 karlmönnum og þremur konum sem allar unnu sem þernur, þar á meðal mamma.
Mamma hafði þegar í fyrstu ferðinni valdið uppþotum á skipinu þegar hún í þöglum mótmælum gegn kvenfyrirlitningu í matsalnum hengdi upp miðjuplakatið úr Playgirl við hliðina á plakatinu með beru stelpunni úr Playboy. Þegar þarna var komið við sögu hafði skipið verið aðeins nokkra daga á sjó í annarri ferð mömmu og kvennfríið stóð fyrir dyrum. Daginn áður hvatti hún samstarfskonur sínar til að standa með sér í fríinu en þær voru nokk ragar við það og svolítið hræddar. Baráttugleði mömmu sannfærði þær og ákveðið var að mæta ekki til vinnu þann 24. október.

Venjulegur vinnudagur hófst kl. 8 að morgni en konurnar á Fjallfossi lágu þá enn í rekkju. Það fréttist um skipið að konurnar væru að mótmæla og um tíuleytið komu skipherra, 1. vélstjóri og 1. stýrimaður niður í káetu til þeirra og færðu þeim kopp, klósettrúllu og handklæði þar sem þær lokuðu sig þarna inni. Þeir hlógu sjálfir manna hæst og héldu að með þessi sprelli sínu væri gamanið búið og stelpurnar myndu drattast á lappir og vinna sína vinnu. Þeim varð ekki að ósk sinni því mamma hvatti til þess að þær yrðu í náttsloppunum allan daginn.

Mennirnir í undirmannamessanum gengu í störf kvennanna og skiptu verkum sín á milli. Einn þreif djúpa diska, annar hnífa, sá þriðji gaffla og fjórði skeiðar. (Karlarnir voru víst voða ánægðir að afreka þetta.) En í yfirmannamessanum var brytinn ræstur út sem var ýldumyglaður yfir að þurfa að ganga í störf stúlknanna og vaska upp könnur og glös eftir skipherrann og mennina hans (það var ekki möguleiki að þeir gerðu það sjálfir). Þegar leið á daginn var andrúmsloftið um borð orðið ansi þrúgað, menn voru fúlir og komu trekk í trekk niður til að hvetja konurnar að koma upp og vinna. Þetta væri ekkert fyndið lengur...

Þær þrömmuðu í matsalinn (vinnustað sinn) og fengu sér að borða, á náttsloppunum og þær þrömmuðu til loftskeytamannsins, á náttsloppunum. Loftskeytamaðurinn varð mjög taugaveiklaður þegar þær komu að máli við hann til að senda skeyti á baráttufundinn á Lækjartorgi sem fram átti að fara þennan dag. Hann spurði þær aftur og aftur hvort þær ætluðu í alvöru að senda það og ætlaði hreinlega ekki að þora að gera það fyrir þær. En þær fengu sitt fram og eftirfarandi skeyti var morsað á fundinn:

utifundur a lækjartorgi
24 okt
reykjavik

m/s fjallfoss staddur a 61,14 gradur nordur og 01,40 gradur vestur
sendum barattu kvedjur i tilefni dagsins
stöndum saman jafnt a sjo sem landi
Kristin gyda regina m/s fjallfoss


Daginn eftir voru konurnar vaktar áður en þær áttu að mæta til vinnu. Sendimaður frá skipherra flutti þau boð að þær skyldu koma rakleiðis til fundar við skipherrann. Nú áttu þær að fá það óþvegið, nú yrði messað yfir þeim, hugsuðu þær með sér.

Þegar upp kom opnaði skipherra og tók blaðskellandi á móti þeim. Mamma hafði ekki áður fengið að koma þarna inn og fannst það bara svoldið gaman. Hann bauð þeim sæti og þær fengu kaffi og með því (gott ef þær fengu ekki bara í glas líka). Hann hafði gleðifregnir að færa. Konan hans hafði hringt í hann í gegnum radíóið og spurt hvurslags frábæru konur hann hefði þarna um borð. Skeytið frá konunum á Fjallfossi hafði verið lesið upp á fundinum og vakið stormandi lukku sagði hún og tíundaði það við hann að hann væri heppinn að hafa svona konur um borð. Karlinum var snúið einn, tveir og þrír og nutu þær góðs af þessu það sem eftir var ferðarinnar.

Mamma fór ekki fleiri ferðir með Fjallfossi en ég vona að verkfallið hafi skilað einhverju til frambúðar. Ég vona að kröfugangan okkar á mánudaginn komi til með að skila einhverju til frambúðar.

Stöndum saman jafnt á sjó sem landi!
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

3 ummæli:

Eva Bjarnadóttir sagði...

Frábær saga. Það er alltaf tími fyrir femínisma - líka á sjó árið 1975.

ungfem sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
ungfem sagði...

Vá, þetta er sönn baráttukona. Þennan baráttuanda skulum við taka með okkur í gönguna á mánudaginn. Ásdís.