föstudagur, september 23, 2005

Viðskiptafræðikennari með jafnréttishugsjón?

Já, viðskiptafræðin er ekki endalaus skemmtun þótt hann Mankiw geti auðveldlega glatt mitt stóra hjarta. Vandinn er sá að viðskiptafræðikennarinn er sneyddur allri jafnréttishugsjón og segir oft eitthvað miður skemmtilegt sem fer verulega í taugarnar á mér.

Dæmi, (haft eftir kennaranum):

"Setjum sem svo að hjón með 3 börn séu bæði útivinnandi. Öll börnin eru á leikskólaaldri og augljóslega eru því leikskólagjöldin á því heimili afar há. Þá er spurning hvort hagstæðara sé fyrir mömmuna að vinna úti fyrir leikskólagjöldunum eða gæta barnanna sjálf."

Hagstæðara fyrir mömmuna? Hvar kemur pabbinn inn í málið, Hr. Viðskiptafræðikennari?

Vissulega er mér ljóst að þessi ummæli kennarans gætu hafa verið sögð í flýti og án umhugsunar og því er honum að sjálfsögðu fyrirgefið. Vegna þessa atviks áttaði ég mig hinsvegar á því hversu gríðarlega mikilvægt það er að kennarar kenni út frá jafnréttissjónarmiðum. Kennarar eru fyrirmyndir og börn taka upp þær hugmyndir sem kennararnir halda uppi. Samfélagið okkar á að heita jafnrétissinnað og því ber kennurum skylda að kenna í anda jafnréttis í stað úreltra og andfeminiskra gilda.

Viðskiptafræðikennarinn minn er engu að síður viðkunnalegur náungi og mér líkar alveg ágætlega við hann. Ég þyrfti helst bara að mæla mér mót við hann og kenna honum sitthvað um feminsma.

Ásdís Egilsdóttir

Engin ummæli: