mánudagur, september 26, 2005

Um vísindakonur.

Vídjótímar hafa alltaf verið vinsælir meðal nemenda í kennslustundum og var einn slíkur í stjörnufræðitímanum í dag. Við horfðum á þáttinn “The planets” þar sem tunglið var tekið til sérstakrar athugunar. Í þættinum voru tekin fjölmörg viðtöl við sovéska og bandaríska vísindamenn sem áttu þátt í að koma fyrstu mönnunum til tunglsins. Ég tók strax eftir því að aðeins einn viðmælendanna var kona, enda fáar konur í vísindum á þessum tíma. Þessi kona var doktor í efnafræði og átti mikilvægan þátt í að efnagreina bergsýni frá tunglinu. Það fáránlega við þetta allt saman var hinsvegar, að viðtölin sem tekin voru við vísindakarlana voru tekin upp á eldflaugapöllum eða á rannsóknarstöfum þar þeir voru að handleika sýni en viðtalið við konuna var tekið upp í eldhúsinu hjá henni þar sem hún var að skræla kartöflur!! Hvað er eiginlega í gangi hérna?? Er vísindakonan búin að ráðast um of á veldi vísindakarlanna, orðin of “karlaleg”, þannig að þörf er á að gera hana aðeins “kvenlegri”??

Svo að ég fái að ausa enn frekar úr jafnréttis- og reiðibrunni mínum, þá er eftirfarandi klausa tekin úr stjörnufræðibókinni minni, “Samtíningur í stjarnfræði”. Hana er hægt að nálgast í bóksölu MR.

“Iðustraumar þessir [iðustraumar í möttli jarðar] eru ekki ósvipaðir því sem hin dæmigerða húsmóðir í vesturbænum hefur orðið vitni að í venjulegum súpupotti, heitur vökvi rís á einum stað en kólnar við yfirborðið og sekkur aftur niður í djúpið á öðrum stað.”

Þetta þykir mér algjörlega óþörf líking og hvað þá að hafa hana í kennslubók! Hún endurspeglar augljóslega lélegan karlrembuhúmor höfundar sem er algjörlega óviðeigandi í bók sem þessari.

Til þess að enda þetta á léttu nótunum við ég koma því að, að sjónvarpsauglýsingarnar frá VR eru geggjaðar. Luv them.

Ásdís Egilsdóttir

Engin ummæli: