Aðgreining kynjanna byrjar strax
Börn eru ótrúlega snemma látin í ákveðin kven- og karlahlutverk. Ég man t.d. að þegar ég var yngri átti ég leikfangastraujárn, potta og þvottavél sem gekk fyrir rafhlöðu. Frændi minn sem var ári yngri en ég átti hinsvegar byssur, leikfangahamar, skrúfjárn og fjarstýrða bíla. Skilaboðin til mín voru: Konur þvo þvottinn og elda matinn en karlar eru hugaðir hermenn sem að gera við hluti þegar þeir bila. Þessi kynjaskipting er ekki ásköpuð heldur lærð af samfélaginu og hana ber að uppræta! Meira að segja í sunnudagaskólanum er börnum strax sagt hvernig þau eigi að vera, hérna kemur lagabrot úr söngtexta frá kirkjunni, en þar syngja strákar fyrir Daníel en stelpur fyrir Rut:
Ég vil líkjast Daníel
og ég vil líkjast Rut.
Því Rut hún er svo þæg og góð
en Daníel fylltur hetjumóð.
Ég vil líkjast Daníel
og ég vil líkjast Rut.
Hérna er börnum strax í byrjun kennt að stúlkur eigi að vera þægar og góðar en strákar eigi að vera hugdjarfir. Ég tel að afleiðingu þessa megi sjá í skólastarfi. Án þess að alhæfa þá hef ég oft séð dæmi þess að stelpur sitji stilltar og prúðar í kennslustundum án þess að gera nokkra athugasemd við kennarann á meðan drengirnir láta sífellt ljós sitt skína, því stúlkunum var kennt að vera þægar af prestinum í kirkjunni. Ég tel einnig boðskapur þessa lags (ekki endilega lagins heldur almennt) hér að ofan eigi stóran þátt í launamuni kynjanna. Hinar þægu konur eru of hræddar við að biðja um launahækkun því þá væru þær að óhlýðnast. Karlar virðast hinsvegar alls óhræddir við að biðja um launahækkun enda hugdirfska snemma stimpluð inn hjá þeim.
Þessi kynjaskipting sem okkur er kennd frá blautu barnsbeini er ekki auðvelt að forðast því fjölmargar barnabækur, söngtextar og leikföng boða slíkt. Ég vil gera foreldra ábyrga og hvet þá hér með til þess að leyfa börnum sínum að velja fyrir sig í stað þess að setja þau í ákveðin hlutverk eftir kyni.
Ásdís Egilsdóttir.
fimmtudagur, janúar 05, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli