þriðjudagur, febrúar 28, 2006

V DAGUR - ofbeldið burt

V-dagur 2006:Í tilefni af V-deginum verður leikritið Píkusögur flutt þann 1. mars kl. 20:00 á stóra sviði Borgarleikhússins. Leikkonur verksins eru Alþingiskonur Íslands og leikstjóri er María Ellingsen. Miðaverð er 2000 kr. og fer ágóðinn í forvarnarstarf V-dags samtakanna. Eftir sýningu verður kokteill í anddyri Borgarleikhússins og verður gestum boðið upp á að styrkja baráttu V-dags samtakanna með frjálsum fjárframlögum. Söfnunarféð verður m.a notað til ad birta nýja herferð gegn nauðgunum. Herferðin byggist á ungum karlmönnum sem taka fyrir þær “mýtur” sem uppi eru í samfélaginu vegna ofbeldis á konum. Landsbankinn er bakhjarl V-dagsins og fjárgæsluaðili fjársöfnunarinnar.

V-dags samtökin: V-dagurinn hefur verið haldinn víða um heim sidan V-dagssamtökin voru stofnuð í New York árið 1998. Samtökin voru stofnuð í tengslum við leikritið Vagina Monologues eða Píkusögur eftir Eve Ensler. Markmið alþjóðlegu V-dagssamtakanna er að binda endi á ofbeldi gegn konum um allan heim og munu samtökin starfa þar til því markmiði hefur verið náð.V-dags samtökin á Íslandi voru stofnuð árið 2002 og hafa lagt áherslu á að berjast gegn nauðgunum og hafa sérstaklega tekið fyrir svokallaðar vinanauðganir þar sem staðreyndin er sú að 3 af hverjum 4 nauðgurum eru vinir og kunningjar þolenda. V-dags samtökin hafa viljað beina kastljósinu að gerendum nauðgana og minna á að ábyrgðin er alltaf þeirra og í hvaða kringumstæðum sem er.V-dags samtökin hafa fundið fyrir miklum velvilja og studning.

Samtökin hafa rekstrargrundvöll frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu sem og stuðning frá einkaaðilum til ýmis konar forvarnarstarfs, og þar munar mestu um framlag Landsbankans sem hefur verið styrktaraðili samtakanna undanfarin ár. V-dags samtökin hafa hlotið viðurkenningar fyrir störf sín, m.a auglýsingaverðlaun og þann heiður að vera valin fyrirmynd annarra V-dags samtaka í Evrópu. V-dagssamtökin eru ópólitísk og óháð öðrum samtökum í baráttu sinni. Nánari upplýsingar um samtökin er hægt að finna á http://www.vday.org/ og www.vdagur.is.

Píkusögur: Eve Ensler hafði áhyggjur af píkum og skrifaði í kjölfarið leikritið Píkusögur sem byggt er á viðtölum við 200 konur. Í leikritinu upphefur Eve kynferði og styrk kvenna með húmor og einlægni, ásamt því að minna á það ofbeldi sem konur heimsins verða fyrir á hverjum degi. Píkusögur voru settar upp í Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum og fengu mjög góðar viðtökur. Píkusögur hafa valdið byltingu í hugarfari í garð kvenna og rofið þögnina gagnvart því ofbeldi sem þær verða fyrir. Leikritið hefur verið þýtt á yfir 35 tungumál og verið sett upp út um allan heim. Leikritið hefur hlotið fjölda verðlauna og hefur safnað yfir 25 milljón dollara sem nýst hefur í baráttuna gegn ofbeldi á konum.

Þingkonur sem leikkonur: Orð eru til alls fyrst og þau orð sem Eve Ensler setti saman í Píkusögum hafa valdið engu minna en heimsbyltinu. Á V-daginn 1. mars eru það fulltrúar íslenskra kvenna á Alþingi sem munu ljá þessum orðum rödd. Það er V-dags samtökunum mikils virði að geta rétt þingkonum þennan kyndil sem þær munu bera áfram til að lýsa upp myrkur þagnar og fordóma vegna ofbeldis gagnvart konum. V-dags samtökin eru óendanlega þakklát fyrir velviljann og hugrekkið sem þingkonurnar sýna með því að taka þátt í þessu dýrmæta verkefni.

Af www.borgarleikhusid.is

Engin ummæli: