laugardagur, júlí 23, 2005

Að pissa á fólkUm daginn voru tónleikar með Snoop Dogg. Ég sá mér nú ekki fært að mæta sjálf en veit um marga sem fóru og skemmtu sér prýðilega. Koma rapparans hefur vakið deilur enda sum efni texta hans sem hvetja til ólöglegs athæfis eða niðurlægjandi og ógeðslegra hluta. Ýmsir hafa bent á að það er kannski ekki eðlilegt að hafa þetta fyrir börnum, unglingum já og bara öllu fólki.

En þó margir hafi hreyft andmælum við komu hans held ég þó að fleiri hafi lagt málstað hans lið. Margir segjast þreyttir á „þessum kerlingum sem væla yfir öllu“. Fleiri tala þó um listrænt frelsi og skoðanafrelsi, en því er iðulega beitt þegar menn vilja hafa frelsi til að hafa við klám í textum sínum eða annað sem er ólöglegt. Skemmtilegustu rökin þóttu mér þó koma frá rappara sem finnst fyrst og fremst hallað á rappheiminn í þessu þjóðfélagi en ekki konur. Hann sagði: „Sko, rappheimurinn er ekkert eins og Ísland. Sumar konur í rappi eru einfaldlega hórur.“

Það sem helst hefur þó verið sagt honum til varnar er að þetta sé eiginlega bara hystería í femínistum og að enginn eigi eftir að taka mark á manninum. Til dæmis eigi enginn eftir að pissa á fólk bara vegna þess að Snoop kom til landsins en mikið hefur verið rætt um texta hans þegar hann segir að það sé sniðugt að pissa á konur.

Ég aftur á móti tel mig geta sannað að Snoop Dogg hefur orðið ýmsum mönnum innblástur um helgina. Ég varð nefnilega fyrir því óskemmtilega atviki um síðustu helgi að það var pissað á mig. Eða réttara sagt pissuðu nokkrir óvinir mínir í glas og köstuðu á mig þar sem ég klifraði í tré. Þetta gerðist sama sólarhring og Snoop hélt tónleika.

Sumum finnst kannski fyndið að venjulegt fólk eigi sér óvini. Mér er sagt að bara James Bond eigi óvini. Aftur á móti er snúið að segja þessa sögu án þess að kalla mennina óvini. Þeir eru í það minnsta ekki vinir mínir. Það sem felst í vináttu er jú meðal annars hvað maður neitar sér stöðugt um að pissa á vini sína, eins og það er nú annars eðlilegt að pissa á fólk. Bara ekki á vini sína.

Ef einhver efast um að Snoop hafi haft tækifæri til að menga huga pissara míns þá hef ég áreiðanlegar heimildir fyrir því að téður óvinur minn fíli hann í tætlur. Heimildarmenn mínir í Egilshöll sáu hann á tónleikunum. Hann hefði varla keypt sér dýra miða á tónleikana ef hann hefði aldrei hlustað á rapparann. Þannig að það er ekki ólíklegt að hann hafi heyrt uppástungu Snoops um að pissa á fólk áður en hann pissaði á mig. Mér finnst varla þurfa frekari vitna við.

Ég var ekki sú eina sem lenti í pissurum þessa helgi. Strákur sem er nýkominn heim úr skiptinemadvöl í SuðurAmeríku fékk líka hlandslettu yfir sig. Það rennir stoðum undir þá kenningu mína að þetta sé ekki einangrað tilvik eða tilviljun heldur nýmóðins árásartækni og niðurlægingaraðferð sem af einhverri ástæðu þykir töff. Reyndar var skiptineminn líka einn af þeim sem stóðu bakvið óvin minn og hvöttu hann áfram á meðan hann pissaði í glas og henti í mig.

Ég hef íhugað ýmsar aðrar ástæður fyrir öllu pissinu heldur en Snoop. Vegna þess að ég var ekki sú eina sem lenti í þessu getur karakter minn ekki einn og sér hafa valdið þessu, þó ég sé auðvitað pirrandi og leiðinleg með eindæmum. Ég velti fyrir mér tengslum við strákinn sem lenti líka í þessu. Við höfum bæði verið skiptinemar á vegum AFS, er það ástæðan? Ég verð að útiloka það vegna þess að það eru fjölmargir aðrir sem voru viðstaddir sem hafa verið skiptinemar á vegum AFS.

Væntanlega voru mennirnir að hefna sín á mér enda ég búin að móðga þá töluvert um kvöldið en ég veit ekki með strákinn, held að hann hafi ekkert gert. Jú, hann hvatti strákana til að kasta á mig pissi. En þar sem þeir tóku sjálfir þátt í því geta þeir varla borið svo sterkar taugar til mín að þeir hefndu sín á honum.

Snoop kemur einn til greina þegar ég er vandlega búin að fara yfir alla kosti, enda getur ekki verið að neitt sem mér dettur ekki í hug komi til greina. Ég lít svo á að hugmyndaflug mitt sé einmitt tæmandi listi yfir alla möguleika.

Nú vilja sumir meina að það sé óþarfi að ásaka Snoop fyrir að draga djöfulinn með sér til Íslands frá rappheimum. Að það hlusti enginn á hann hvort eð er. Fyrir síðustu helgi hafði ég sjálf enga tröllatrú á að koma mannsins hefði nokkur áhrif. Nú finnst mér atvikið um helgina benda sterklega til þess að raunin sé önnur.

Getur það virkilega verið tilviljun að sömu helgi, reyndar sama dag, og frægur pissari kemur til landsins er pissað yfir mig? Og það í fyrsta og eina skiptið hingað til. Ég kaupi það ekki.

Mér dettur helst í hug að þetta sé einhver bylgja sem gengur yfir borgina. Ég vona þá að hún gangi fljótt yfir og komist úr tísku þegar Snoop tekur saman föggur sínar og yfirgefur svæðið.

Ugla Egilsdóttir. Lesið upp á Talstöðinni 18. júlí.

Engin ummæli: