miðvikudagur, júní 22, 2005

Ræða Kristínar Tómasdóttur 22 ára nema á Þingvöllum 19. júní 2005

Kæru konur, ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn.

Það er mér sannur heiður að ávarpa ykkur í dag. 90 ár eru liðin frá því við fengum kosningarétt og í ár fögnum við líka ýmsum öðrum mikilvægum áföngum sem náðst hafa í réttundabaráttu kvenna undanfarna áratugi. Áföngum sem hafa haft áhrif á okkur allar.

Barátta kvenna á Íslandi fyrir réttindum sínum hefur verið löng og ströng ferð. Mörg mikilvæg skref áfram en líka all nokkur afturábak. Íslenskar konur eiga formæðrum sínum margt að þakka og á herðum okkar hvílir sú ábyrgð að halda þessari baráttu áfram. Eftir alla orkuna, vinnuna, fórnirnar og niðurlæginguna sem konur fyrr og síðar hafa gengið í gegnum, skammast ég mín fyrir það að við skulum vera að fagna sjálfsögðum mannréttindum og að enn þurfum við að sýna samstöðu og berjast fyrir réttindum okkar.

Það gleður mig þó að sjá okkur svo margar hér í dag, enda er lykillinn að velsemd og réttindum kvenna samstaða og hún sést aldrei betur en á stundum sem þessari.

Það er árið 2005. Ég er í háskóla – takk , ég er í vinnu – takk, ég er með kosningarétt – takk, ég get stjórnað barneignum mínu – takk, ég get gift mig og skilið eftir hentisemi – frábært, ég get tekið lán og ég get stjórnað eigin fjárhag- takk fyrir það! Þetta þakka ég, formæðrum mínum á borð við Ingibjörgu H. Bjarnason, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Ingu Láru Lárusdóttur, Björgu Thorarensen og öðrum sem ruddu brautina. Ég þakka rauðsokkunum, kvennalistakonum, kvennréttindafélögum og öðrum baráttukonum.

Ég á það samt á hættu að mér verði nauðgað. Ég á það samt á hættu að fá minni laun en kollegi minn af gagnstæðu kyni, ég á það samt á hættu að vera ekki metin að verðleikum sökum kynferðis míns, ég á það samt á hættu að komast ekki inn á þing af sömu ástæðu, ég á það samt á hættu að fá ekki vinnu vegna þess að ég get orðið ólétt, ég á það samt á hættu að verða fyrir kynbundnu ofbeldi í ýmsum myndum. Ég er í mun meiri hættu en karlmenn í svipaðri stöðu og ég.

Ef ég verð þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast dóttur í framtíðinni er það mín ósk að hún standi hér í framtíðinni og þakki okkur sem hér stöndum í dag fyrir það að hún eigi það ekki á hættu að henni sé nauðgað, að hún eigi það ekki á hættu að fá lægri laun en kollegar hennar af gagnstæðu kyni og að hún eigi það ekki á hættu að henni sé mismunað eftir kynferði á nokkurn hátt.

Ég skal vera alveg hreinskilin. Stundum er ég orðin dauð þreytt á þessari baráttu. Stundum er ég vonlaus og alveg að gefast upp. ÉG ER 22 ÁRA GÖMUL! HALLÓ! Allstaðar mæti ég fordómum, óþolinmæði, litlu umburðarlyndi og kaldhæðni. Það mætti stundum halda að ég væri eini feministinn innan Háskóla Íslands því ég er fræg fyrir það og oftar en ekki litin hornauga. Þeim mun fleiri hornaugu því lengur verð ég með lægri laun en kollegar mínir af gagnstæðu kyni. Ég veit samt að það þýðir ekki neitt að vera vonlaus og viti MENN ég er rétt að byrja. Ég er full af eldmóði og ákveðin í því að nú þarf bara að sigrast á því sem eftir er.

Og hvað get ég gert? Ég get hvatt alla sem í kringum mig standa til þess að taka höndum saman og átta sig á alvarleika málsins. Þessu þjóðfélagi get ég ekki breytt ein og ekki getum “bara við” sem erum meðvituð um ástandið breytt því saman. Þetta ástand breytist aðeins ef við tökum okkur öll á. Laungreiðendur verða að binda enda á launamuninn, yfirmenn verða að ráða meðvitað í stjórnunarstöður með tilliti til kyns, karlar verða að hætta að nauðga og auglýsendur verða að vera meðvitaðir um afleiðingar þess að hver auglýsingin á fætur annarri er með allsberri konu langt undir kjörþyngd.

Á Íslandi sem í öðrum löndum viðgengst klám, vændi og ofbeldi. Að útrýma slíkri hegðun ætti að vera forgangsatriði hjá öllum, hvar sem er í heiminum.

Að meðaltali hefur fjórða hver kona á Íslandi verið beitt kynbundnu ofbeldi, klámmarkaðurinn stækkandi fer og mansal veltir álíka peningum og ólögleg sala á vopnum og eiturlyfjum.

Ég ansa því ekki að við getum ekki breytt þessu, að við ráðum ekki við internetið og hvað aðrir gera á bak við luktar dyr. Ég ansa ekki sögum af hinni hamingjusömu vændiskonu og að lagasetningar geri bara illt verra! Við breytum engu með þessu hugarfari. Ég veit að við getum breytt þessu, komið í veg fyrir nauðganir, sifjaspell, klám, áreitni og launamun. Við verðum að standa saman, fræðast og finna lausnir!!

Kona hefur aldrei verið forsætisráðherra, utanríkisráðherra, biskup eða bankastjóri á Íslandi. Eins og ég sagði áðan þá er árið 2005, hvernig í ósköpunum stendur á þessu?
Í 100 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi eru 96 karlar og 4 konur sem gegna æðstu stjórnunarstöðum.
Ráðherrar eru 9 karlar og aðeins 3 konur, Þetta er ekki jafnrétti!

Það er liðinn allt of langur tími síðan konur brutust til mennta og út á vinnumarkaðinn og þar af leiðir að frasinn um að jafnréttið geti tekið tíma er orðin ansi úreltur. Þetta eru staðreyndir sem við eigum ekki að sætta okkur við, þetta eru staðreyndir sem staðfesta það að mun erfiðara er fyrir konur að komast upp þjóðfélagsstigann en karla. Þeir virðast rúlla sér upp rúllustigann. Þetta eru staðreyndir sem benda til þess að við verðum að halda áfram til að ná raunverulegu jafnrétti og ekki láta þagga niður í okkur með einhverju smáræði.

Konum hefur á síðustu árum farið fækkandi inni á alþingi.

Konur vilja vera inn á þingi og þingið á að vera aðgengilegt fyrir þær. Afsakanir eins og að konur bjóði sig ekki fram duga mér ekki. Ef beita þarf öðrum leiðum og aðferðum, nú gerum það þá. Konur eru helmingur þessarar þjóðar og eiga að hafa aðgang að helmingi valda í þessu samfélegi. Lýðræðið á að endurspegla lýðinn.

Vændisfrumvarpið hefur enn ekki komist í gegnum allsherjarnefnd en um fá mál hefur skapast breiðari samstaða meðal kvenna þvert á flokka og samtök. Nú síðast varð uppi fótur og fit þegar taka átti á fyrningarfresti í kynferðisafbrotum gegn börnum. Þetta er skammarlegt. Þetta eru málin sem á að afgreiða á undan öllum öðrum.

Þegar lagt var fram frumvarp um sölu símans var alþingissalurinn full setinn af áhugasömum alþingismönnum sem var virkilega annt um þetta málefni. Þegar lagt var fram frumvarp um að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum sínum mættu 2!!! 2!!! HALLÓ...

Til þess að stöðva vændi og klám verðum við öll að láta okkur þessi mál varða. Þingmenn óháð flokkum, alþýðan óháð kyni, rannsóknarmenn óháð fagi, fjölmiðlar og svona mætti lengi telja.

Launamunur á atvinnumarkaði hagfræði og viðskipta menntaðra hefur aukist úr 6,8% í 7,9% frá því árið 2003.

Þessar tölur benda til þess að okkur er að fara aftur. Jafnréttisumræðan er að opnast, en launamunurinn eykst. HALLÓ? Atvinnuval eða að konur biðji ekki um launahækkun eru aukaatriði í þessari umræðu. Þessi ábyrgð er alfarið í höndum laungreiðenda hvort sem þeir eru á kvennavinnustöðum, karlavinnustöðum eða blönduðum vinnustöðum. Það sem gleymist svo oft er að karlavinnustaðir borga mun betur en kvennavinnustaðir. Sjálf hef ég unnið bæði í byggingavinnu og á leikskóla og velti því fyrir mér hvaðan frasinn um erfiðisvinnu kemur!

Frá 5 ára aldri velja börn sér leikfélaga eftir kyni og leikir þeirra fara að einkennast af þeim kynhlutverkum sem samfélagið samþykkir. Þetta leiðir svo af sér afar kynskipt atvinnulíf. 75% vinnandi fólks vinnur annað hvort á karla eða kvenna vinnustöðum. Eitt af því sem við þurfum að gera er að vera meðvituð um uppeldi barnanna okkar.

Í sambandi við launamuninn verð ég að fá að hrósa Runólfi Ágústssyni rektor háskólans á Bifröst fyrir ræðu sína við útskrift núna í vor. Þar fjallaði hann um launamun útskrifaðra viðskiptafræðinga og hitti naglann á höfuðið. Hann er í lykilstöðu til þess að hafa áhrif á launamuninn og hvet ég hann til þess að tileinka sér frekari kynjafræðikennslu í framtíðinni. Kynjafræði er lykillinn að hugarfarsbreytingu og hugarfarsbreyting er lykillinn að jafnréttinu.

Kröfur til karla og kvenna verða sífellt óraunhæfari. Konur eiga að vera grennri og karlar eiga að vera harðari. Staðalímyndir stjórna samfélagi okkar og öll erum við dæmd eftir þeim. Þegar klámmyndbönd eru afþreyingarefni unglinga, landlæknir hefur áhyggjur af óheilbrigðu kynlífi þeirra og átraskanir eru orðnar hluti af okkar daglega lífi þá hljótum við að spyrja okkur hvort staðalímyndir nútímans séu að gera okkur gott!


Ég horfði á útför Jóhannesar Páls páfa og ég grét. Ekki vegna þess hve sárt ég saknaði hans. Heldur vegna þess að allir valdamestu menn heimsins sáu ástæðu til þess að leggja til hliðar ágreiningsmál sín og héldu til Rómar til þess að votta honum og málstað hans virðingu sína. Þarna var feðraveldið ljóslifandi. Varla konu að sjá. Kaþólska kirkjan er á móti fóstureyðingum og samkynhneigð og Benedikt 16 fullyrðir að konur séu hið óæðra kyn. Þessum skoðunum heldur hann á lofti og margar milljónir manna lofsyngja hann. Ég minni enn og aftur á árið 2005 og HALLÓ... hvert í ósköpunum stefnir þetta?

Ég nefni þetta sem dæmi um æðsta valdið og að við þurfum að hafa áhrif á það til þess að geta nálgast takmark okkar. Hættum að tala okkar á milli. Tölum við Páfann, Bush og valdhafa þessa lands.

Æðstu embætti dómsvalds, löggjafarvalds og framkvæmdavalds á Íslandi eru 84. Þegar þau eru skoðuð með kynjagleraugum kemur í ljós að þeim gegna 60 karlar og 24 konur. Við verðum að skapa sameiginlegan skilning bæði kvenna og karla á því að við þurfum að vera í sama liði. Það er okkur öllum fyrir bestu. Án þátttöku og skilnings karla á jafnréttisbaráttu komumst við ekki langt. Við þurfum fleiri og fjölmennari hópa karla sem skilja mikilvægi jafnréttis umræðunnar, fleiri sem taka sér karlahóp Feministafélagsins til fyrirmyndar. Þetta er eitt af mörgum og mikilvægum verkefnum okkar.

Ágæta samkoma,
Ég er sannfærð um að trúin á betri heim fleytir okkur áfram í þessum efnum. Trúin á það að við getum breytt einhverju, að við getum haft áhrif á umhverfi okkar í einu og öllu.

Ég trúi því og ÆTLA AÐ HALDA ÁFRAM og hvet ykkur, konur og karla til þess að standa með mér í því.

Engin ummæli: