miðvikudagur, september 13, 2006

Hvað þýða fánarnir?

Bleiku fánarnir tólf sem flaggað er nú í hálfa stöng í Bankastræti standa hver og einn fyrir ákveðið vandamál. Hér kemur nánari lýsing á hverju vandamáli fyrir sig. Við biðjum ykkur um að íhuga hvað hægt sé að gera til að leysa vandann!

Nauðganir

Yfir 90% fórnarlamba nauðgana eru konur og í langflestum tilfellum eru þeir sem beita ofbeldinu karlar. Mikill meirihluta nauðgana eru skipulagðar fyrirfram og framdar af vinum eða fjölskyldumeðlimum. Lyfjanauðganir og nauðganir inni á skemmtistöðum færast í aukana. Klæðnaður, framkoma eða orðspor konu réttlætir aldrei að henni sé nauðgað. Nauðgun er alltaf á ábyrgð geranda. Áfallaröskun þeirra sem verða fyrir nauðgun er sambærileg við þá sem upplifa stríð eða náttúruhamfarir. Fórnarlömb nauðgana eru ekki tekin trúverðug og því eru sjaldan lagðar fram kærur eða ákært í þessum málum. Alltof sjaldan falla dómar í nauðgunarmálum og yfirleitt eru þeir mjög vægir. Hættan á því að vera nauðgað stjórnar hegðun og uppeldi kvenna auk þess sem nauðganir eru þekkt hernaðartækni til að lama baráttuþrek þjóða í stríði.

Heimilisofbeldi

Heimilið á að veita fólki öryggi en slík er ekki raunin í tilfelli margra kvenna og barna. Ofbeldi úti á götu er ekki það sama og ofbeldi inni á heimili. Heimilisofbeldi innheldur bæði líkamlegt ofbeldi, nauðganir og andlegt ofbeldi.

Launamisrétti

Heildartekjur kvenna aðeins 65% af heildartekjum karla. Kvennastörf njóta minni virðingar og eru metin til lægri launa en karlastörf. Konur fá oft minna borgað en jafnhæfur karl sem gegnir sambærilegu starfi, slíkur hreinn launamunur mælist nú um 12-15% á landsvísu.

Þöggun

Haltu kjafti og vertu sæt. Þægar stelpur eru góðar stelpur.

Klámvæðing

Á okkur dynja tónlistarmyndbönd þar sem fáklæddar konur dansa fyrir fullklædda menn og olíuborin brjóst og rassar eru aðalþemun. Berar konur auglýsa Freyjudraum og lambakjöt. Litlar stelpur ganga í pornstar bolum og g-strengjum. Píkuaðgerðir færast í aukana til þess að stelpur líti betur út þröngum buxum.

Vændi

Vændi er ofbeldi. Líkamar kvenna eru ekki söluvörur. Vændi er neyðarúrræði þeirra kvenna sem stunda það og helst oftar en ekki í hendur við mansal. Vændi og mansal þrífast ekki án hvors annars.

Mansal

Nútímaþrælasala þrífst vel í formi mansals. Konur og stúlkur ganga kaupum og sölum oftast til að vera neyddar til starfa í kynlífsiðnaðinum.

Klám

Klám er þegar kynlífstengdar athafnir eru settar í niðurlægjandi og/eða ofbeldisfullt samhengi. Klám er ofbeldi. Oft er klám tengt við börn til dæmis með því að láta klámstjörnur klæðast skólabúningum. Margar klámmyndaleikkonur hafa verið beittar ofbeldi í æsku og klámiðnaðinum fylgir meira ofbeldi sem og mansal.

Valdaleysi

Konur eru aðeins þriðjungur þingmanna og aðeins örlítill hluti þeirra sem sitja í stjórnum fyrirtækja landsins. Konur reka sig aftur og aftur í “glerþakið” og eiga erfitt með að ná í hæstu stjórnunarstöður bæði innan einkafyrirtækja og ríkisstofnana.

Staðalímynd

Stelpur fá bleikt armband og strákar blátt við fæðingu, þarna byrjar skiptingin og fólk getur ekki keypt gjafir handa barninu fyrr en það veit hvors kyns það er. Leikföng handa börnum og viðmót fólks gagnvart þeim er ólíkt. Körlum er innrætt ofbeldis- og áhættuhegðun en konum undirgefni, hvorugt er jákvætt.

Ósýnileiki

Nýjustu rannsóknir á Íslandi sýna að konur eru aðeins 30% þeirra sem birtast í fjölmiðlum og skiptir þá nánast engu máli um hvers kyns efni er að ræða. Jafnvel þó konur séu helmingur þjóðarinnar endurspegla fjölmiðlar það ekki. Fréttamat fjölmiðla er oft á þá vegu að störf og áhugamál kvenna eru veigaminni en karla eða á einhvern hátt ómerkileg.

Strippbúllur

Strippbúllur spretta upp sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu. Þrátt fyrir að einkadans sé bannaður með lögreglusamþykkt bæði í Reykjavík og Kópavogi er farið fram hjá reglum og einkadans er dansaður á vel flestum þessara staða. Leyfi þarf til að hafa strippsýningar en einnig er farið fram hjá slíkum reglum í nafni nærfatasýninga. Súludans er hrein hlutgerving kvenna þar sem þær eru þarna aðeins til að þóknast körlum. Vændi og mansal þrífast inni á þessum stöðum og tengjast þeim órjúfanlegum böndum.

Engin ummæli: