föstudagur, janúar 28, 2005
Heimavinnandi femínisti?
Einhverntímann fyrir áramótin sat ég í tíma í Háskólanum með svona 50 öðrum í einum salanna í Háskólabíói. Verið var að fjalla um klám og í framhaldi af því spruttu upp umræður um femínisma. Eins og gengur og gerist eru sumir háværari en aðrir þannig að kennarinn var fljótur að loka umræðunni og halda áfram með efnið. Lokaorðin í umræðunni átti þó stúlka sem sagði: “En þessir femínistar eru bara að banna konum að vera heimavinnandi húsmæður og sjá um börnin sín.” Það hefði ábyggilega haft sömu áhrif á mig ef hún hefði staðið upp í miðri kennslustund, gengið að mér og hellt yfir mig ísköldu vatni í lítravís. Ég var furðulostin. Kennarinn var svo fljótur að drífa glærusýninguna sína áfram að enginn fékk rúm til að leiðrétta, já ég leyfi mér að fullyrða leiðrétta, þessa fullyrðingu samnemanda míns. Kannski eru núna til viðbótar 50 aðrir samnemar mínir sem standa í þeirri trú að femínistar fyrirlíti húsmæður. Ég vona ekki…
Femínistar hafa alla tíð unnið að því að opna möguleika fyrir konur en ekki loka á þá. Ef kona vill verða framkvæmdastjóri þá á hún að hafa möguleika á því, ef kona vill verða “ruslakarl” þá á hún að hafa möguleika á því, ef kona vill verða hárgreiðslumeistari á hún að hafa möguleika á því, ef kona vill verða heimavinnandi húsmóðir á hún að hafa möguleika á því!
Það sem gerst hefur á undanförnum áratugum er að konur hafa í auknum mæli fært sig inn á svið sem áður voru talin hæfa aðeins körlum. Þetta kemur fram í mörgu: Útrás kvenna á vinnumarkaðinn, í stjórnunarstöður, í raunvísindanám, í pólitík og svo framvegis. Karlar hafa hins vegar ekki sóst eftir því að færa sig inn á það svið sem áður var talið hæfa aðeins konum: Umönnun barna, hjúkrunarfræði, leikskólakennaranám, saumaskap og það að vera heimavinnandi húsfaðir. Kannski hefur þetta eitthvað með völd að gera, ef kona færir sig inn á karlasvið fær hún aukin völd, ef karl færir sig inn á kvennasvið missir hann völd. Hlutverk femínista í dag, og þá veit ég að margir eru sammála mér, er að auka völd og virðingu þeirra hlutverka sem talin eru kvenleg. Femínistar banna ekki konum að vera heimavinnandi, þvert á móti vinna femínistar að því að vekja fólk til umhugsunar um að það starf eigi að skipa alveg jafnan virðingar- og valdasess og önnur störf í þjóðfélaginu.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli