fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Eftirfarandi pistill er ræða sem ég hélt í Kringlunni þegar Kvenréttindafélag Íslands hélt ræðumaraþon kvenna þann 23.-24. október síðastliðinn.

Mig hefur lengi dreymt um að vera þula. Þið vitið ein af þessum huggulegu dömum eða örfáu herrum sem birtast á skjánum á hverju kvöldi og segja manni hvað verður á dagskrá. Nú maður hlustar á þuluna og getur síðan spurt sjálfa sig: Langar mig, eða langar mig ekki að horfa á sjónvarpið í kvöld?
Ég er að hugsa um að láta þennan draum minn rætast hér í dag.

Góðan daginn góðir landsmenn og velkomnir að skjánum. Dagskráin í dag hefst á efni fyrir yngstu kynslóðina. Fyrsti þátturinn er vinsælasti þátturinn í dag, japönsk teiknimynd sem auðvitað er stútfull af ofbeldi því eins og við vitum er engin teiknimynd án ofbeldis. Næst kemur sívinsæll ofbeldisþáttur frá 9. áratugnum um karlmenn sem allir eru vöðvabúnt og kalla sig Masters of the universe. Að lokum er svo barnfóstrukúbburinn, þáttur um hressar táningsstúlkur sem passa börn og tala um sæta stráka.

Strax að loknum barnaefni taka svo við fréttir og veður.

Stöldrum aðeins við hérna… Mig hefur reyndar alltaf líka dreymt um að vera fréttaþula, spurning hvort ég slái ekki bara tvær flugur í einu höggi hér í dag og láti þann draum rætast líka.

Í fréttum er þetta helst:

Maður á þrítugsaldri var í dag sýknaður í héraðsdómi af ákæru um nauðgun þar sem ekki þótti sýnt að stúlkan sem lagði fram ákæruna hefði í raun sagt nei.

Formaður stærsta stjórnmálaafls á Íslandi hefur ekki áhyggjur af slæmri útkomu kvenna í prófkjöri flokksins. Hann segir prófkjörið fara fram á einstaklingsgrundvelli og kyn þar ekki skipta máli. Hann segir þó konur verða að standa betur saman innan flokksins.

Launanefnd sveitafélaganna sér ekki ástæðu til að hækka laun grunnskólakennara þar sem karlmenn eru mjög fáir í stéttinni.


…og þá aftur yfir í hlutverk þulunnar.

Eftir fréttir verða sýndir tveir bandarískir gamanþættir. Báðir þættirnir fjalla um það sama. Aðalsöguhetjan er feitur, ósjálfbjarga og barnalegur karl. Hann er svo giftur gullfallegri konu sem er ofurmamma en getur stundum orðið soldið þreytandi með tuðinu í sér. Eiginkonan kemst þó ekki í hálfkvisti við tengdamömmuna sem kemur reglulega í heimsókn og gerir karlinum gramt í geði með stöðugum útásetningum og með því að láta hann stússast hitt og þetta meðan hann gæti verið að drekka bjór og horfa ruðning. Karlinn segir svo alls kyns brandara um hvað gerist ef konan lætur hann vaska upp eða neitar honum um kynlíf!


Klukkan 21 hefst svo veruleikaþátturinn: Americas next top sexbomb en hann hefur átt gríðarlegum vinsældum að fagna um allan heim síðan hann hóf göngu sína og það er ekki síst að þakka stjórnanda þáttarins sem er Pamela Spears. Í þættinum keppast 12 ungar stúlkur um titilinn en þær þurfa að keppa í ýmsum þrautum svo sem að bjarga heiminum á bikiníi einum klæða og með kynþokkann einn að vopni. Ein stúlka fellur úr keppni í viku hverri en sjónvarpsáhorfendur geta haft áhrif á niðurstöðuna með símakosningu þar sem þeir styðja sína bombu.

Þegar kynbomburnar hafa lokið sér af er komið að umræðuþættinum Gullkálfurinn. Þar fær Jón Jónsson til sín valda gesti að tala um stjórnmál og atvinnulíf þjóðarinnar allrar. Í þættinum í kvöld verður talað um málefni Kópavogs í tilefni af ört vaxandi byggð í Kópavogi, miðju höfuðborgarsvæðisins. Jón mun fá til sín sömu viðmælendur og voru í blaði um Kópavog sem nýverið var dreift á öll heimili höfuðbogarsvæðisins. (Innskot: hér fletti ég í gegnum og blaðið og benti á myndirnar og greinarnar sem þar voru). En það eru bæjarstjórnarkarlinn, hinn bæjarstjórnarkarlinn, arkitektakarlinn, skólakarlinn, bankakarlinn, bakarakarlinn, kirkjukarlinn, íþróttakarlinn, bílakarlinn, pönkkarlinn og Bykokarlinn. Eins og við vitum öll þá vill Gullkálfurinn spegla raunveruleikann eins og hann er, því hljóta engar konur að búa í Kópavogi.


Kvikmynd kvöldsins er harðhausamyndin Explosion in the sunset. Myndin fjallar um sálarlausan sprengjufræðing, leikinn af Bruce Willis, sem vikið hafði verið úr bandaríska hernum en nú hótar að sprengja upp neðanjarðarlest og grunnskóla í New York fyrir sólarlag ef lögreglumaður (Keanu Reeves) sem kom upp um spillingu hans innan hersins getur ekki leyst ákveðnar þrautir fyrir þann tíma. Lögreglumaðurinn sem sjálfur á við áfengisvanda og ofbeldishneigð að stríða gerir sitt besta til að leysa þrautirnar en á vegi hans verða hver þokkadísin á fætur sem fær ekki staðist. Það eru þær Halle Berry, Lucy Lu og Angelinu Jolie sem tæla hann. Hörkuspennandi, ofbeldisfull og sexí mynd.

Um miðnætti verða svo dagskrárlok og verða þá spiluð tónlistarmyndbönd þar til barnaefni hefst á morgun. Engum þarf því að leiðast og horfa á stillimynd því fullklæddir karlar munu syngja og rappa meðan hópur af bikiníklæddum konum mun hrista rassinn framan í myndavélina.

Nú getið þið ákveðið hvort ykkur langar, eða langar ekki að horfa á sjónvarpið í kvöld.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

Engin ummæli: