miðvikudagur, maí 18, 2005

Erlent | mbl.is | 18.5.2005 | 22:18
Bandaríska þingið íhugar að banna kvenkyns hermönnum að koma nálægt átökum

Repúblikanar á Bandaríkjaþingi eru að reyna að fá samþykkt frumvarp sem bannar að konur í hernum komi nálægt átökum. Frumvarpið er nú fyrir þingnefnd sem fjallar um hermál, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Flutningsmenn tillögunnar vilja að konum verði ekki lengur leyft að vinna sem bílstjórar, læknar og skipulagssérfræðingar í sveitum sem veita bardagasveitum aðstoð. Segja þeir að konur séu í þessum sveitum séu of nálægt átökunum. Konum í bandaríska hernum er bannað að vera í fremstu víglínu.

Bandaríski herinn er hins vegar andvígur tillögunni enda er erfitt að fá fólk til að ganga í herinn. Segja yfirmenn í hernum að ef frumvarpið verði að lögum verði þeir að flytja 22.000 konur úr starfi og fá karla í staðinn.

Í Írak eru átökin fyrst og fremst við uppreisnarmenn sem þýðir að þar er engin ákveðin fremsta víglína. Um 9.000 konur eru í bandaríska hernum í Írak og hafa 35 látið lífið þar. Átök geta orðið hvar sem er og hvenær sem er og konur hafa oftsinnis lent í bardaga.

Repúblikanar í þinginu vilja nú að konum verði bannað að vera í svokölluðum stuðningssveitum bardagasveita en herinn er því mjög andsnúinn. Mjög erfitt hefur reynst að fá nýtt fólk til að ganga í herinn að undanförnu og á síðustu þremur mánuðum vantar 15% upp á að herinn nái settum markmiðum um nýliðun. Verði frekari hömlur settar á hlutverk kvenna í hernum verður enn erfiðara að manna sveitir hersins.

Nadira

föstudagur, maí 13, 2005

Sýknaður af broti gegn systurdóttur

Héraðsdómur Norðurlands vestra klofnaði í máli manns sem saknaður var um kynferðisbrot gegn systurdóttur sinni. Tveir dómarar sýknuðu manninn, en sá þriðji skilaði af sér séráliti og vildi dæma hann í tíu mánaða fangelsi.

Maður hefur verið sýknaður af ákæru um að hafa misnotað tíu ára gamla systurdóttur sína. Einn dómari skilaði af sér séráliti og vildi dæma manninn í tíu mánaða fangelsi auka þess að láta hann greiða stúlkunni hálfa milljón í miskabætur.
Maðurinn sem var sakaður um að hafa káfað innan klæða á rassi og kynfærum stúlkunnar, sett fingur inn í kynfæri hennar og nuddað lim sínum við ber kynfæri hennar og rass. Stúlkan var í heimsókn hjá manninum og sjö ára gamalli dóttur hans og sváfu þau öll í sama rúmi. Stúlkan bar að maðurinn hefði talið hana sofandi en hún lét ekki vita af því að hún vakti og greindi frá því hvernig hann hefði að lokum farið og þvegið sér. Þegar hún taldi að maðurinn væri sofnaður sagðist hún hafa fært sig niður á gólf og var hún þar sem eftir lifði nætur.
Meint brot átti að hafa átt sér stað í júní 2003. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands vestra 6. þessa mánaðar af Halldóri Halldórssyni dómsformanni og Ásgeiri Magnússyni, héraðsdómurum. Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari skilaði séráliti.
Maðurinn neitaði staðfastlega sakargiftum og kvaðst enga skýringu geta gefið á því hvers vegna stúlkan sakaði hann um að hafa brotið á sér. Stúlkan var tvisvar fengin til að tjá sig um atburðina fyrir dómi en vildi í fyrra skiptið ekki tjá sig. Í millitíðinni var tekið viðtal við stúlkuna í Barnahúsi þar sem hún greindi starfsmanni þar frá atburðum. Meirihluti dómsins tekur fram að þessir annmarkar á framburði stúlkunnar gegn staðfestri neitun mannsins þýði að ekki hafi tekist að "færa fram lögfulla sönnun á sekt hans"
Í sérákvæði Sigrúnar bendi hún á að ágreiningslaust sé að stúlkan hafi dvalist nætulangt hjá manninum á umræddum tíma, hún hafi greint bæði bróður sínum og móður frá atburðunum en það gerði hún rúmum mánuði eftir að meint brot átti sér stað. "Þótt stelpan hafi ekki skýrt ókunnugum frá atburðinum strax, álít ég hana trúverðuga og einlæga í framburði sínum" sagði hún og vísaði jafnframt til álits lækna um að meyjarhaft stúlkunnar hafi borið gróna áverka og hún hafi sýnt merki um slæma andlega líðan eftir atburðinn, svo sem svefntruflanir og sjálfsmeiðingar.
Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari segir að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað en hann hafi verið sendur áfram til ríkissaksóknara.

Þessi grein kom í Fréttablaðinu í morgun en fær enga athygli á sjónvarpsskjánum. Ef til vill verður eitthvað um þetta mál rætt þegar ríkissaksóknari hefur tjáð sig um málið. Gáleysi norðlensku dómaranna tveggja er vítavert og til háborinnar skammar. Jafnframt lýsi ég yfir ánægju hvað framgöngu þriðja dómarans varðar. Vil gjarnan skapa umræður meðan á próflestrinum stendur.

Brynja B. Halldórs-og Hildar.