föstudagur, október 22, 2004

Virðum konur

Nú fer styttist í að ungliðahópurinn haldi sitt fyrsta opna kvöld. Allur undirbúningur hefur gengið vonum framar og er hópurinn að verða sá virkasti í félaginu. Það verður spennandi að sjá viðbrögð ungs fólks við þessu framtaki og vonum við að sem allra flestir mæti og kynni sér femínisma.

Ástæða þess að við völdum þetta viðfangsefni er hversu fáir virðast vita hvað hugtakið þýðir. Mikill miskilningur er á ferðinni eins og vill gjarnan gerast þegar konur berjast fyrir rétti sínum. Það sem femínismi þýðir er "jafnrétti kynjanna með því að auka hlut kvenna". Það getur virst tvísýnt að ætla að berjast fyrir jafnrétti með áherslu á annað kynið en í raun er það það eina sem virkar. Ef við þyrftum ekki að berjast fyrir hluti kvenna þá þyrftum við ekki að berjast fyrir jafnrétti.

En hvers vegna þessi barátta? Ættu ekki allir að geta sæst á að gera hlut kvenna jafnan karla? Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir kvenna til þess að vera litnar jafningjar karla á öllum sviðum hefur það ekki enn tekist og mega þær ennþá þola misrétti vegna kyns síns.

Misrétti gegn öðrum kynþáttum, gegn samkynhneigðum eða öðrum hópum hefur farið minnkandi og þykir ekki lengur eðlilegt að hæðast að fólki vegna kynhneigðar eða litarháttar í okkar samfélagi. Fimmaurabrandarar, háðsglósur og níðyrði heyra nánast sögunni til og sýnir það hvernig hugarfarið hefur breyst og orðið umburðarlyndara.
Þrátt fyrir þetta nýfengna umburðarlyndi mega konur ennþá hlusta á orð eins og "kerling" vera brúkuð sem níðyrði á meðan "karl" heldur ávallt sinni upprunalegu merkingu og hefur jafnvel ákveðinn þokka yfir sér. Karlrembubrandarar þykja fyndnir og konur sem bregðast við þeim ennþá fyndnari. Þetta segir okkur mikið um það hver virðingarstaða kvenna almennt er í samfélaginu okkar.

Engin ummæli: