miðvikudagur, september 13, 2006

Sorgarflögg i Bankastræti

Nú er flaggað í hálfa stöng tólf bleikum fánum í ljósastaurum í Bankastræti. Ungliðahópur Femínistafélags Íslands stendur að baki fánunum og vill með þeim vekja athygli á þeim vandamálum á sviði jafnréttis sem enn eru ekki leyst í íslensku nútímaþjóðfélagi. Íslendingar standa sig vel í jafnréttismálum á heimsmælikvarða en þó er enn nokkuð langt í land til að kynin standi jafnfætis.

Hver fáni stendur fyrir ákveðið vandamál sem þarf og á að leysa sem fyrst. Flokkarnir eru:

nauðganir
heimilisofbeldi
launamisrétti
þöggun
klámvæðing
vændi
mansal
klám
valdaleysi
staðalímyndir
ósýnileiki
strippbúllur

Hér er um yfirgripsmikið svið að ræða og til að leysa þessi mál þarf samtakamátt fólksins í landinu. Öll málefnin eru þverpólitísk og í þeim felast sjálfsögð mannréttindi. Stjórnvöld, valdafólk í atvinnu- og viðskiptalífinu og verkalýðsfélögin þurfa að vinna að jafnrétti kynjanna með skýrri stefnumótun og framfylgni við hana. Ekki síst þarf almenningur að taka skýra afstöðu gegn misrétti til að sú hugarsfarsbreyting sem til þarf nái fram að ganga. Við skorum á þjóðina að standa með jafnrétti og vinna að því svo hægt verði að draga alla fánana að húni.

Engin ummæli: