miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Kvenleg og karlleg gildi...

Nú er ég búin að vera að læra alveg heilmikið í skólanum um tvíhyggju og eðli í tengslum við umræðu um kyn. Um aldamótin 1900 spruttu upp miklar umræður um eðli kynjanna og var þetta mismunandi eðli staðfest með líffræðilegum og læknisfræðilegum rannsóknum hversu réttmætar sem þær nú voru. Samkvæmt þessu voru til dæmis eiginleikar karla: Rökvísi, skynsemi, vitsmunir og réttlæti. Eiginleikar kvenna voru þá: Órökvísi, umhyggja og þær stjórnuðust frekar af tilfinningum og innsæi en vitsmunalegri hugsun. Ekki ætla ég að segja til um hversu mikið eimir enn af þessum eðlis- og tvíhyggjuhugmyndum í dag en þó eru alls kyns hugmyndir ríkjandi um kynin sem enn er verið að reyna að útskýra með tilvísun til líffræðilegra eiginleika. Til dæmis er því í fyrsta lagi haldið fram að konur geti ekki bakkað í stæði og í öðru lagi er það útskýrt með tilvísun til hormóna.

Það að hægt sé að skipta eiginleikum í karllega og kvenlega finnst mér ekki skipta höfuðmáli heldur það að þeir eiginleikar sem taldir eru kvenlegir hafa ekki sama virðingarsess í þjóðfélaginu. Ef bara er litið til launa þá eru leikskólakennari með þriggja ára háskólamenntun og tölvunarfræðingur með þriggja ára háskólamenntun ekki með sömu laun og skiptir þá engu hvort það er karl eða kona sem gegna hvorri stöðunni fyrir sig. Það sem skiptir máli í þessu er að leikskólakennari vinnur með kvenleg gildi, uppeldi, tilfinningar, umönnun og umhyggju meðan tölvunarfræðingurinn vinnur með karlleg gildi rökhugsun og skynsemi og þar af leiðandi er leikskólakennarinn með miklu miklu lægri laun.

Þess vegna segi ég, er ekki kominn tími aftur á að femínistar vinni að því að upphefja þessi gildi sem talin eru kvenleg? Ég held ekki að jafnrétti náist með því að allir einbeiti sér aðeins að karllegum gildum því þjóðfélagið starfar ekki án leikskólakennara og hjúkrunarfræðinga. Forsendan fyrir því að fólk vilji samsama sig hinum kvenlegu eiginleikum og jafnvel velja sér starf sem inniheldur þá er að þeir verði hafnir til sömu virðingar og aðrir eiginleikar og gildi.

Hvað finnst ykkur???

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

Engin ummæli: