fimmtudagur, janúar 13, 2005

Kjólar og buxur, buxur og kjólar...

Hugmyndir fólks um hvort jafnrétti hefur verið náð eru margar og mismunandi. Sumir halda því fram að vegna þess að það sé komið á lagalega séð þá sé málið leyst. En hlutirnir eru ekki alltaf eins í orði og á borði. Þó konur og karlar séu jafn rétthá í lagalegum skilningi þarf það ekki að endurspeglast í hversdagslífinu. Einnig er athyglisvert hvernig þróunin að þessu svokallaða jafnrétti er tilkomin.

Fyrir eitt eða tvö hundruð árum síðan gengu konur í kjólum og karlar í buxum, í dag mega konur ganga í því sem áður var álitið karlmannsföt en það gildir ekki á hinn veginn. Konur aðlagast karllægum heimi, ganga í buxum, fara inn á svið sem áður voru aðeins talin við hæfi karla og það er talið gott og blessað. Jafnrétti felst sem sagt í því að vígja konur inn í heim karla hægt og rólega en alveg er látið vera að hampa kvenlegum gildum og það sem talið er kvenleg störf eða einkenni. Þora karlar að láta sjá sig í pilsi eða kjól? Kannski Einar Ágúst úr í júróvisjón um árið en þá er það upptalið. Það að karl bendli sig við eitthvað sem er yfirlýst kvenlegt er talið neikvætt og hann verður í flestum tilfellum sér til skammar. Konur mega vera karlmannlegar (alla veganna að miklu leyti) en karlar voga sér ekki að láta bendla sig við eitthvað kvenlegt því þá bíður karlmennska þeirra hnekki og þá eru þeir í vondum málum.

Um leið og við upphefjum allt sem tengist karllægum gildum og lítum niður á hin kvenlægu erum við að takmarka líf okkar. Við erum að takmarka möguleika okkar og hvað græðum við á því? Ekki mikið. Kannski þá fölsku hugmynd um að fyrst hlutirnir séu eins og þeir eru búnir að vera áratugum og öldum saman þá hljóti þeir að vera í lagi. Hefðir eða venjur eru ekki sterk rök og í raun ansi slöpp. Ekki miklar framfarir fólgnar í því að halda í gamlar kreddur til þess eins að halda í þær.



Karlmennska og kvenleiki verða rædd þriðjudaginn 18. janúar á uppákomu ungliðahóps femínistafélagsins í Hinu Húsinu klukkan 19:30 í nýja salnum (gamla pósthúsið).

Komið og tjáið ykkur og heyrið hvað aðrir eru að hugsa
.

Svenni.

Engin ummæli: