þriðjudagur, febrúar 28, 2006

V DAGUR - ofbeldið burt

V-dagur 2006:Í tilefni af V-deginum verður leikritið Píkusögur flutt þann 1. mars kl. 20:00 á stóra sviði Borgarleikhússins. Leikkonur verksins eru Alþingiskonur Íslands og leikstjóri er María Ellingsen. Miðaverð er 2000 kr. og fer ágóðinn í forvarnarstarf V-dags samtakanna. Eftir sýningu verður kokteill í anddyri Borgarleikhússins og verður gestum boðið upp á að styrkja baráttu V-dags samtakanna með frjálsum fjárframlögum. Söfnunarféð verður m.a notað til ad birta nýja herferð gegn nauðgunum. Herferðin byggist á ungum karlmönnum sem taka fyrir þær “mýtur” sem uppi eru í samfélaginu vegna ofbeldis á konum. Landsbankinn er bakhjarl V-dagsins og fjárgæsluaðili fjársöfnunarinnar.

V-dags samtökin: V-dagurinn hefur verið haldinn víða um heim sidan V-dagssamtökin voru stofnuð í New York árið 1998. Samtökin voru stofnuð í tengslum við leikritið Vagina Monologues eða Píkusögur eftir Eve Ensler. Markmið alþjóðlegu V-dagssamtakanna er að binda endi á ofbeldi gegn konum um allan heim og munu samtökin starfa þar til því markmiði hefur verið náð.V-dags samtökin á Íslandi voru stofnuð árið 2002 og hafa lagt áherslu á að berjast gegn nauðgunum og hafa sérstaklega tekið fyrir svokallaðar vinanauðganir þar sem staðreyndin er sú að 3 af hverjum 4 nauðgurum eru vinir og kunningjar þolenda. V-dags samtökin hafa viljað beina kastljósinu að gerendum nauðgana og minna á að ábyrgðin er alltaf þeirra og í hvaða kringumstæðum sem er.V-dags samtökin hafa fundið fyrir miklum velvilja og studning.

Samtökin hafa rekstrargrundvöll frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu sem og stuðning frá einkaaðilum til ýmis konar forvarnarstarfs, og þar munar mestu um framlag Landsbankans sem hefur verið styrktaraðili samtakanna undanfarin ár. V-dags samtökin hafa hlotið viðurkenningar fyrir störf sín, m.a auglýsingaverðlaun og þann heiður að vera valin fyrirmynd annarra V-dags samtaka í Evrópu. V-dagssamtökin eru ópólitísk og óháð öðrum samtökum í baráttu sinni. Nánari upplýsingar um samtökin er hægt að finna á http://www.vday.org/ og www.vdagur.is.

Píkusögur: Eve Ensler hafði áhyggjur af píkum og skrifaði í kjölfarið leikritið Píkusögur sem byggt er á viðtölum við 200 konur. Í leikritinu upphefur Eve kynferði og styrk kvenna með húmor og einlægni, ásamt því að minna á það ofbeldi sem konur heimsins verða fyrir á hverjum degi. Píkusögur voru settar upp í Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum og fengu mjög góðar viðtökur. Píkusögur hafa valdið byltingu í hugarfari í garð kvenna og rofið þögnina gagnvart því ofbeldi sem þær verða fyrir. Leikritið hefur verið þýtt á yfir 35 tungumál og verið sett upp út um allan heim. Leikritið hefur hlotið fjölda verðlauna og hefur safnað yfir 25 milljón dollara sem nýst hefur í baráttuna gegn ofbeldi á konum.

Þingkonur sem leikkonur: Orð eru til alls fyrst og þau orð sem Eve Ensler setti saman í Píkusögum hafa valdið engu minna en heimsbyltinu. Á V-daginn 1. mars eru það fulltrúar íslenskra kvenna á Alþingi sem munu ljá þessum orðum rödd. Það er V-dags samtökunum mikils virði að geta rétt þingkonum þennan kyndil sem þær munu bera áfram til að lýsa upp myrkur þagnar og fordóma vegna ofbeldis gagnvart konum. V-dags samtökin eru óendanlega þakklát fyrir velviljann og hugrekkið sem þingkonurnar sýna með því að taka þátt í þessu dýrmæta verkefni.

Af www.borgarleikhusid.is

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Jafnrétti fyrir alla

Jafnréttisnefnd Reykjavíku heldur opinn fund á Hótel Sögu föstudaginn 17. febrúar 2006. Fundarstjóri er Þóra Arnórsdóttir, fréttakona. Efni fundarins er umfjöllun um jafnréttishugtakið, mannréttindi, minnihlutahópa og möguleika sveitarfélaga til að þjónusta alla hópa jafn vel.
Spornum gegn mismunun – stuðlum að þátttöku


13:00 -13:10 Setning
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri setur fundinn

13:10 - 13:30 Inngangsávarp
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, formaður jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar

13:30 - 13:50 Stefna Háskóla Íslands gegn mismunun
Baldur Þórhallsson, dósent í stjórnmálafræði

13:50 - 14:10 Skilningur á jafnréttishugtakinu
Þorgerður Þorvaldsdóttir, sagn- og kynjafræðingur

14:10 - 14:30 Jafnrétti og minnihlutahópar
Rannveig Traustadóttir, prófessor

14:30 - 15:00 Kaffihlé

15:00 - 15:20 Jafnrétti og þjónusta sveitarfélaga – er hægt að þjónusta alla jafn vel?
Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvarinnar Vesturgarðs

15:20 - 16:10 Jafnrétti út frá mínum sjónarhóli
Amal Tamini, fræðslufulltrúi, Kristín Tómasdóttir, nemi, Sigursteinn R. Másson, formaður Öryrkjabandalagsins. Stefán Benediktsson, arkitekt og Viðar Eggertsson, leikari

16:10 - 16:30 Umræður og fyrirspurnir

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.