laugardagur, janúar 29, 2005

Hugmyndasamkeppni

Jæja allir ungir femínistar,
þá er tími til að leyfa listamanninum í ykkur að láta ljós sitt skína. Nú efnum við til hugmyndasamkeppni um flott lógó og/eða slagorð sem ungliðahópurinn getur staðið undir. Keppnin mun standa út febrúar og munum við tilkynna vinningshafa inn á þessari síðu. Það lógó sem vinnur mun svo væntanlega verða prentað á boli og merki sem verður svo selt. Eins og allar aðrar femínískar vörur er hægt að selja á okkar mánaðarlegu Hittingum sem og kannski annarsstaðar eins of á stórum Femínista Hittum á Sólon og í búðinni Oni.
Allar hugmyndir skulu verða sendar til Nadiru kna@hi.is fyrir 1.mars.

Think pink!
Kveðja Nadira

föstudagur, janúar 28, 2005


Heimavinnandi femínisti?

Einhverntímann fyrir áramótin sat ég í tíma í Háskólanum með svona 50 öðrum í einum salanna í Háskólabíói. Verið var að fjalla um klám og í framhaldi af því spruttu upp umræður um femínisma. Eins og gengur og gerist eru sumir háværari en aðrir þannig að kennarinn var fljótur að loka umræðunni og halda áfram með efnið. Lokaorðin í umræðunni átti þó stúlka sem sagði: “En þessir femínistar eru bara að banna konum að vera heimavinnandi húsmæður og sjá um börnin sín.” Það hefði ábyggilega haft sömu áhrif á mig ef hún hefði staðið upp í miðri kennslustund, gengið að mér og hellt yfir mig ísköldu vatni í lítravís. Ég var furðulostin. Kennarinn var svo fljótur að drífa glærusýninguna sína áfram að enginn fékk rúm til að leiðrétta, já ég leyfi mér að fullyrða leiðrétta, þessa fullyrðingu samnemanda míns. Kannski eru núna til viðbótar 50 aðrir samnemar mínir sem standa í þeirri trú að femínistar fyrirlíti húsmæður. Ég vona ekki…

Femínistar hafa alla tíð unnið að því að opna möguleika fyrir konur en ekki loka á þá. Ef kona vill verða framkvæmdastjóri þá á hún að hafa möguleika á því, ef kona vill verða “ruslakarl” þá á hún að hafa möguleika á því, ef kona vill verða hárgreiðslumeistari á hún að hafa möguleika á því, ef kona vill verða heimavinnandi húsmóðir á hún að hafa möguleika á því!

Það sem gerst hefur á undanförnum áratugum er að konur hafa í auknum mæli fært sig inn á svið sem áður voru talin hæfa aðeins körlum. Þetta kemur fram í mörgu: Útrás kvenna á vinnumarkaðinn, í stjórnunarstöður, í raunvísindanám, í pólitík og svo framvegis. Karlar hafa hins vegar ekki sóst eftir því að færa sig inn á það svið sem áður var talið hæfa aðeins konum: Umönnun barna, hjúkrunarfræði, leikskólakennaranám, saumaskap og það að vera heimavinnandi húsfaðir. Kannski hefur þetta eitthvað með völd að gera, ef kona færir sig inn á karlasvið fær hún aukin völd, ef karl færir sig inn á kvennasvið missir hann völd. Hlutverk femínista í dag, og þá veit ég að margir eru sammála mér, er að auka völd og virðingu þeirra hlutverka sem talin eru kvenleg. Femínistar banna ekki konum að vera heimavinnandi, þvert á móti vinna femínistar að því að vekja fólk til umhugsunar um að það starf eigi að skipa alveg jafnan virðingar- og valdasess og önnur störf í þjóðfélaginu.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Kjólar og buxur, buxur og kjólar...

Hugmyndir fólks um hvort jafnrétti hefur verið náð eru margar og mismunandi. Sumir halda því fram að vegna þess að það sé komið á lagalega séð þá sé málið leyst. En hlutirnir eru ekki alltaf eins í orði og á borði. Þó konur og karlar séu jafn rétthá í lagalegum skilningi þarf það ekki að endurspeglast í hversdagslífinu. Einnig er athyglisvert hvernig þróunin að þessu svokallaða jafnrétti er tilkomin.

Fyrir eitt eða tvö hundruð árum síðan gengu konur í kjólum og karlar í buxum, í dag mega konur ganga í því sem áður var álitið karlmannsföt en það gildir ekki á hinn veginn. Konur aðlagast karllægum heimi, ganga í buxum, fara inn á svið sem áður voru aðeins talin við hæfi karla og það er talið gott og blessað. Jafnrétti felst sem sagt í því að vígja konur inn í heim karla hægt og rólega en alveg er látið vera að hampa kvenlegum gildum og það sem talið er kvenleg störf eða einkenni. Þora karlar að láta sjá sig í pilsi eða kjól? Kannski Einar Ágúst úr í júróvisjón um árið en þá er það upptalið. Það að karl bendli sig við eitthvað sem er yfirlýst kvenlegt er talið neikvætt og hann verður í flestum tilfellum sér til skammar. Konur mega vera karlmannlegar (alla veganna að miklu leyti) en karlar voga sér ekki að láta bendla sig við eitthvað kvenlegt því þá bíður karlmennska þeirra hnekki og þá eru þeir í vondum málum.

Um leið og við upphefjum allt sem tengist karllægum gildum og lítum niður á hin kvenlægu erum við að takmarka líf okkar. Við erum að takmarka möguleika okkar og hvað græðum við á því? Ekki mikið. Kannski þá fölsku hugmynd um að fyrst hlutirnir séu eins og þeir eru búnir að vera áratugum og öldum saman þá hljóti þeir að vera í lagi. Hefðir eða venjur eru ekki sterk rök og í raun ansi slöpp. Ekki miklar framfarir fólgnar í því að halda í gamlar kreddur til þess eins að halda í þær.



Karlmennska og kvenleiki verða rædd þriðjudaginn 18. janúar á uppákomu ungliðahóps femínistafélagsins í Hinu Húsinu klukkan 19:30 í nýja salnum (gamla pósthúsið).

Komið og tjáið ykkur og heyrið hvað aðrir eru að hugsa
.

Svenni.

mánudagur, janúar 03, 2005

Heyrst hefur ...



  • að á dögunum hafi verið stofnað femínistafélag framhaldsskólanema. Nafnið er enn á huldu en undirbúningur vel á veg kominn.
  • að ungliðahópurinn muni standa fyrir Ungmennahittingi í Hinu Húsinu í hverjum mánuði í vetur.
  • að öllum er velkomið að hafa samband og taka þátt í femínísku starfi.
  • að áramótaskaupið hafi verið laumu-femínískt.

Eva